Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Furðusleðar öttu kappi á Mývatni

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV/Landinn

Furðusleðar öttu kappi á Mývatni

26.03.2020 - 09:32
Fljúgandi galdrahjól, baðkar á skíðum, heimasmíðaður hestur og tveggja hæða rúta voru meðal þeirra farartækja sem sjá mátti þeysast um ísilagt Mývatn á dögunum. Keppnin um Mývatnssleðann byrjaði sem hálfgert grín en hefur nú fest sig í sessi.

„Þetta er eiginlega kassabílakeppni, eða kassasleðakeppni,“ útskýrir Stefán Pétur Sólveigarson einn upphafsmanna keppninnar. Tveggja manna lið skrá sig til leiks og mæta með heimasmíðaðan sleða. Svo er keppt í hraðabraut og þrautabraut auk þess sem verðlaun eru veitt fyrir best hannaða sleðann að mati keppenda og vinsælasta sleðann að mati áhorfenda. 

Liðið Áfram með smjörið bar sigur úr bítum í ár þegar árangur í öllum greinum var lagður saman. Sleðinn var heimasmíðað smjörstykki á skíðum og keppendurnir, þeir Michael Ryan og Guðmundur Ólafsson, komu alla leið úr Hafnarfirði til að taka þátt. Guðmundur þakkaði hugvitssemi Michaels sigurinn. „Og það hversu léttur sleðinn var sem ég held að hafi hjálpað okkur mikið.“