Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Furðar sig á starfsemi erlendra rútufyrirtækja

06.05.2017 - 15:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, furðar sig á því að erlend rútufyrirtæki geti stundað hér akstur án nokkurs eftirlits. Rútufyrirtæki hjá Austur-Evrópu geri tilboð um akstur á um helmingi þess verðs sem eðlilegt geti talist.

Haraldur Teitsson, framkvæmdastjóri hópferðabílafyrirtækisins Teits Jónassonar, lýsti áhyggjum sínum fyrr í síðasta mánuði. Þá voru komnar til landsins 8 rútur frá Litháen og var gert ráð fyrir að 15 slíkar rútur sinni ferðamönnum í sumar.

Gylfi segir að erlendu fyrirtækin geri íslenskum ferðaskrifstofum tilboð á um helmingi þess verðs sem hægt er að bjóða, út frá þeim kjörum og reglum sem séu í gildi hér á landi. „Og við höfum verið að spyrja stjórnvöld „bíddu, hvernig er með Samgöngustofu? Má maður bara koma með 20 rútur, ekkert skoðaðar og stunda hér rútuakstur án þess að það sé neinn sem fylgist með því?“ Það geta ekki íslensk fyrirtæki gert sko. Þau eru undir mjög ströngu eftirliti varðandi öryggi og aðbúnað. Það sama á við varðandi akstursskífur og aksturstíma starfsmanna,“ segir Gylfi.

Eina svar verkalýðshreyfingarinnar við þessu sé að gera það sama og gert var fyrir hundrað árum - að senda fólk á vinnustaði og ræða við þá sem þar starfa „Þessir félagar okkar búa við þær aðstæður að þeir geta lítið sjálfir barist fyrir sínum réttindum. Og þess vegna verðum við hin að taka þessa vakt,“ segir Gylfi Arnbjörnsson.