Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Furðar sig á að ekki megi vera kynlaus salerni

20.11.2019 - 10:57
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson/RÚV
Dóra Björg Guðjónsdóttir, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, furðar sig á því að Vinnueftirlitið geri Reykjavíkurborg afturreka með kynlaus salerni. Áður en kynjamerkingar á salernum starfsfólks borgarinnar í Borgartúni og Ráðhúsinu hafi verið fjarlægðar, hafi verið leitað samþykkis Vinnueftirlitsins og það fengist. Ákvörðun Vinnueftirlits sé í andstöðu við nýleg lög um kynrænt sjálfræði.

Morgunblaðið greinir frá því í dag að Vinnueftirlitið hafi gert Reykjavíkurborg að setja á ný upp kynjamerkingar á salerni í skrifstofuhúsnæði borgarinnar að Borgartúni 12-14. Borgin hafi fengið frest til fjórtánda október til að verða við þessu. Ár er síðan borgin ákvað að fjarlægja kynjamerkingar á salernum starfsfólks í stjórnsýsluhúsum borgarinnar.

Samþykki Vinnueftirlitsins hafi legið fyrir

Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar, segir að borgin hafi lagt í mikla undirbúningsvinnu áður en kynjamerkingar hafi verið fjarlægðar af salernum starfsfólks. Deildarstjóri hjá Vinnueftirlitinu hafi komið á fund ráðsins 14. mars sl. til að ræða málið sérstaklega og hafi lagt blessun sína yfir þessa fyrirætlan, líkt og fram kemur í fundargerð:

Mannréttinda- og lýðræðisráð þakkar Birni Þór Rögnvaldssyni frá Vinnueftirlitinu fyrir komuna á fund ráðsins. Það er ljóst af skriflegu svari Vinnueftirlitsins og kynningu Björns að Reykjavíkurborg er heimilt að gera salernisaðstöðu starfsfólks ókyngreinda, að því gefnu að kröfu um lágmarksfjölda lokaðra salerna sé uppfyllt.

Alexandra Briem, varaborgarfulltrúi Pírata og réttindakona um baráttu hinsegin fólks, er ekki síður undrandi á því að Vinnueftirlitið leggist nú gegn kynlausum salernum:

„Við lögðum mikið upp úr því að vinna þetta mál vel og leituðum umsagnar Vinnueftirlitsins og okkur skildist áður en við fórum í þetta að það væri í lagi að við myndum ókyngreina salernin í miðlægu stjórnsýslunni hjá okkur. Af því að það var lögð mikil vinna í þetta og við vildum passa okkur að allt væri í lagi áður en við færum í þetta, þá finnst okkur mjög bagalegt að vera svo gerð afturreka með þessa réttindabót hinsegin fólks sem við vildum ráðast í eftir á. Að fá svo strax á eftir að fá svo skilaboð um það að við þurfum að setja skiltin upp aftur. Það er svolítið skrýtið,“ segir Alexandra. 

Úreltar og gamaldags reglur

Hvað finnst þér um það í ljósi réttindabaráttu hinsegin fólks að fá svona fyrirmæli?

„Mér finnst bara reglurnar úreltar og gamaldags. Þetta eru gömul lög og þeim er ætlað að tryggja það að það séu næg salerni fyrir bæði kynin,“ segir Alexandra. „Kyn mannkynsins eru fjölbreyttari en svo að það séu bara karlar og konur.“

Einkennilegt í ljósi laga um kynrænt sjálfræði

Dóra Björt segir að Vinnueftirlitið verði krafið skýringa á þessari viðhorfsbreytingu. 

„Í ljósi þess að okkur hafa bæði borist þau skilaboð að þetta megi og þetta megi ekki, þá er auðvitað ekki algjörlega ljóst hvorum fyrirmælum við eigum að fylgja. Við þurfum fyrst að fá úr því skorið frá Vinnueftirlitinu og ráðuneytinu hvort það sé í raun þannig að í dag, 2019, megi ekki gera einstaklingssalerni ókyngreind og auka þannig aðgengi allra kynja að samfélaginu. Það væri mjög undarleg niðurstaða í ljósi nýrra laga um kynrænt sjálfræði og þá þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár í átt að auknu umburðarlyndi og því ber bara að spyrja sig, hvort ber að fylgja lögum eða reglugerð,“ segir Dóra. 

„Þetta er auðvitað sérstaklega óheppilegt því það er óþægilegt að vera gerð afturreka með aukna mannréttindavernd og því er þetta ekki léttvægt mál,“ segir Dóra. Borgin hafi sent andmæli til Vinnueftirlitsins. Dóra telur að Vinnueftirlitið hafi ekki rökstutt nægilega hvers vegna eigi aftur að setja upp kynjamerkingar. Vinnueftirlitið vísar til reglugerðar. „Í reglugerðinni er ekki kveðið á um að það þurfi sérstaklega að merkja salernin. Það er talað um að það skuli vera nægilega mörg fyrir hvort kyn, karl og konu. Við teljum okkur uppfylla það ákvæði. Við erum líka með einstaklingssalerni,“ segir Dóra. 

Hún segir að kynjamerkingar hafi aðeins hafi verið teknar niður á salernum starfsfólks ekki almenningssalernum.

Getur beitt dagsektum

Í bréfi sem Vinnueftirlitið sendi Reykjavíkurborg kemur fram að ráðist hafi verið í úttekt 19. september sl. Þar er borginni gefinn frestur til 14. október til að tilkynna um úrbætur. Þá segir að verði það ekki gert:

getur komið til stöðvunar vinnu eða lokunar á þeim hluta starfseminnar er fyrirmæli beinast að, sbr. 84. gr. og/eða álagningar dagsekta.

Stefnt að kynlausum almenningssalernum

Dóra segir að Reykjavíkurborg hafi það markmið að almenningssalerni verið kynlaus. Enn sem kemur er hafi kynjamerkingar ekki verið fjarlægðar af almenningssalernum.

„Það var flóknara mál vegna þess að um bása er að ræða,“ segir Dóra. Kynlaus salerni borgarstarfsmanna sé fyrsta skrefið. „Við erum t.d. að skoða aðstæður í sundlaugum með þessum formerkjum líka. Þ.e.a.s. að það er mikilvægt að transfólk og fólk sem skilgreinir sig hvorki sem karl né konu geti notað þjónustu borgarinnar og geti upplifað að þau séu velkomin í okkar samfélagi,“ segir Dóra.