Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fundu loðnugöngur vestan við Kolbeinseyjarhrygg

22.01.2020 - 18:21
Mynd með færslu
Birkir Bárðarson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun.  Mynd:
Vart hefur orðið loðnu undan norðanverðu landinu í rannsóknarleiðangri sem nú stendur yfir. Leiðangursstjórinn telur þó ekki að mikið sé af henni. Veður hefur truflað leitina.

Frá því rannsóknarskipið Árni Friðriksson og fjögur uppsjávarskip héldu loðnuleitar fyrir viku, hefur verið leitað frá Suðausturlandi, norður með Austfjörðum og vestur að Kögurgrunni úti af Vestfjörðum.

Heildarmyndin ekki komin

„Við urðum varir við loðnu vestan við Kolbeinseyjarhrygginn, með landgrunnsbrúninni,“ segir Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri. „En heildarmyndin er ekki komin. Við eigum eftir að klára vestur úr Grænlandssundinu, eða hérna með grunnunum úti af Vestfjörum.“

„Ekkert gríðarlegt magn sem við sáum“

Og það eina sem lesa megi úr þessu sé að eitthvað af loðu er komið á þessar slóðir, en ekkert austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg. „Ég held að mér sé nú alveg óhætt að segja að þetta var nú ekkert gríðarlegt magn sem við vorum að sjá þarna,“ segir Birkir.
„Er von til þess að þú sjáir eitthvað meira vestar?“
„Það er alltaf von og ekkert gefið í þessu, hvorki af eða á. En hérna vestan við okkur er farinn að ganga ís inn á sundið og hann mun takmarka það svæði sem við komumst yfir,“ segir hann.

Aðeins einn dagur eftir af þessum leiðangri

Þau þrjú skip sem eftir eru við rannsóknirnar liggja nú við bryggju á Ísafirði vegna brælu. Og þrátt fyrir leiðindaveður segir Birkir að með aðstoð veiðiskipanna hafi mælingar tekist furðu vel. „Eins og veðurútlitið er núna, þá erum við bara að horfa á einn lítinn veðurglugga núna á föstudaginn. Síðan tekur við brjálað veður og engar mælingaaðstæður. Þá mun þessarri yfirferð vara lokið.“

Stefnt að öðrum loðnuleiðangri í febrúar

Síðan sé áætlað að fara í heildarleiðangur til loðnuleitar í febrúar. Þar vonast Birkir til að geta aftur norið aðstoðar veiðiskipanna sem hann segir gríðarlega mikilvægt. „Það eru vilyrði fyrir samstarfi þar, þó að í smáatriðum séu ekki allir hnútar hnýttir.“