Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fundu lager með 6.000 sýnatökupinnum

26.03.2020 - 11:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Niðurstöður með þá 20 þúsund sýnatökupinna sem stoðtækjaframleiðandinn Össur bauð fram til að skima fyrir COVID-19 sjúkdómnum liggja ekki endanlega fyrir. Yfirlæknir á sýkla og veirufræðideild Landspítalans segir fyrstu niðurstöðurnar þó vera jákvæðar en þau vilji fleiri próf. Óvæntur lager með 6.000 pinnum sem hægt er að nota hefur fundist og eru því til um 9.000 pinnar á landinu.

„Þetta eru annars konar pinnar sem við vissum eiginlega ekki af en getum notað,“ segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla-og veirufræðideild,  í samtali við fréttastofu.

Hann segir þetta lager sem verði útrunnin í næsta mánuði en ekkert sé að því að nota hann. Miðað við stöðuna í dag séu því til um níu þúsund sýnatökupinnar en nokkuð gekk á pinnana í gær. Um tíma var óttast að herða þyrfti á skilyrðum fyrir sýnatökum hér á landi vegna skorts á pinnum.

Bundnar höfðu verið vonir við 20 þúsund sýnatökupinnar sem stoðtækjaframleiðandinn Össur bauð fram.  Pinnarnir eru ekki framleiddir af Össuri heldur eru rekstrarvara sem var til á lager og hafa verið notaðir við samsetningu í framleiðsludeild fyrirtækisins.  Fyrirtækið bauðst til að láta vöruna í té ef hægt væri að nota hana til að skima fyrir COVID-19. 

Fyrstu rannsóknir bentu til að pinnarnir virkuðu ekki en Landspítalinn gaf ekki upp alla von og lét prófa þá á tveimur heilsugæslustöðvum í gær. Karl segir að þetta taki allt sinn tíma en fyrstu niðurstöður lofi góðu. „En við viljum fá fleiri próf áður en við erum hundrað prósent ánægð og setjum þetta af stað.“ Send verði út tilkynning frá spítalanum þegar endanlega niðurstaða liggi fyrir.