Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fundu kannabis á slóðum Leifs heppna

19.07.2019 - 10:01
Mynd með færslu
 Mynd: Helgi Halldórsson - Wikimedia Commons
Fornleifafræðingar hafa fundið leifar kannabisplantna í víkingaþorpi á Nýfundnalandi. Fornleifafundurinn vekur upp spurningar hvort víkingarnir hafi annað hvort reykt eða borðað kannabis.

Þetta kemur fram í nýrri grein sem birtist í vísindatímaritinu  Proceedings  of the National Academy of Science. Víkingaþorpið er á svæði sem kallast L'Anse aux Meadows á norðanverðu Nýfundnalandi. Byggð hófst þar í kringum árið 1000. Fornleifafræðingar hafa fram til þessa talið að byggð hafi einungis verið þar í skamman tíma en nýjar rannsóknir hafa leitt í ljós að mögulega bjuggu landnemar á svæðinu fram á 13. öld. 

Í ágúst á síðasta ári grófu fornleifafræðingar upp mómýri á svæðinu og fundu ýmsar lífrænar leifar sem þá grunar að séu frá tímum víkinganna. Meðal þess sem fannst voru valhnetur og frjókorn úr kannabisplöntum. Hvorki valhnotutré né kannabisplöntur eru hluti af flóru Nýfundnalands og því er talið að víkingarnir hafi flutt þær með sér frá heimkynnum sínum í norðri.

Víkingarnir gætu hafa notað kannabis

Fornleifafræðingarir velta því nú fyrir sér hvort víkingarnir hafi notað kannabisplöntur í lækninga -eða afþreyingarskyni eða nýtt hana í fatagerð. Það er jafnframt ekki hægt að útiloka að frjókornin hafi borist náttúrulega til Nýfundnalands. Í samtali við LiveScience segir fornleifafræðingurinn Birgitta Wallace að það sé ekki víst að fornminjarnar séu yfirhöfuð eftir víkingana. „Mér finnst ólíklegt að norrænu mennirnir hafi snúið aftur á 12. og 13. öld þar sem engin ummerki um mannvirki frá þeim tíma eru á svæðinu,“ segir Wallace. Hins vegar sé vitað að frumbyggjar héldu til á þessum slóðum á þeim tíma. 

Patricia Sutherland hjá Náttúrufræðisafni Kanada segir að taka skuli fornleifafundinum með fyrirvara þegar kemur að því að tímasetja hversu lengi víkingarnir dvöldu á svæðinu. Víkingarnir hafi allt eins getað flutt plönturnar með sér að norðan við landnámið í kringum árið 1000 og plönturnar haldið áfram að dafna löngu eftir að víkingarnir voru farnir. 

Leifur Eiríksson hélt til á þessum slóðum um árið 1000. Mögulegt er að landsvæðið sem við þekkjum sem Nýfundnaland sé Vínland en það nafn gaf Leifur landinu eftir að hann fann þar vínvið. Á Vínlandi byggðu Leifur og samferðamenn hans skála og dvöldust veturlangt.

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV