Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fundu innbrotsþjófinn á göngu með bakpoka um nótt

27.02.2020 - 10:24
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Grunsamlegur maður á göngu með bakpoka var handtekinn á Suðurnesjum í nótt grunaður um innbrot á fjölda heimila í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum að undanförnu.

Þegar lögreglumenn höfðu afskipti af honum í nótt könnuðust þeir við hann og strax kviknaði grunur um að þarna væri fundinn þjófurinn sem leitað hefur verið að vegna innbrotahrinu í umdæminu. Lögreglan greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni í morgun.

Maðurinn veitti lögreglunni leyfi til þess að líta í bakpokann sem hann var með. Það kom fljótlega í ljós að hann ekki í eigu mannsins. Hann viðurkenndi síðar að vera á leið heim úr innbroti.

Eftir að hafa viðurkennt brot sitt vísað hann lögreglunni heim til sín þar sem mikið magn af því sem talið er vera þýfi fannst. Þar var meðal annars veiðidót, verkfæri og aðrir munir. Í íbúðinni var á fleti fyrir annar maður sem er talinn tengjast innbrotunum og var hann einnig handtekinn.

„Við vinnum nú að því að skrá þessa muni og fara yfir allt saman,“ skrifar lögreglan á Facebook-síðu sína. Mennirnir verða yfirheyrðir síðar í dag. „Við munum vera í sambandi við þá sem kært hafa þjófnaði undanfarið og fáum þá aðila til að koma og bera kennsl á hluti sem við haldlögðum í nótt.“

Þess er beint til fólks sem kann að hafa spurningar að senda þær inn á Facebook-síðu Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV