Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fundu 2.500 ára ósnortna náttúruperlu fyrir norðan

05.01.2020 - 19:30
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Tæplega tvöþúsund og fimmhundruð ára gamall ósnortinn dropsteinshellir uppgötvaðist nýverið í Þeistareykjahrauni. Sérfræðingar óttast að hann verði eyðilagður. Vegur sem nýlega var lagður í gegnum hraunið eykur mjög á umferð í nágrenni hans.

Þeistareykir eru jarðhitasvæði um 25 kílómetra suðaustur af Húsavík. Í Þeistareykjahrauni er töluverður fjöldi hella, sem hafa ekki allir verið kannaðir. Fyrir um tveimur árum uppgötvuðu félagar í Hellarannsóknafélagi Íslands algjörlega ósnortinn dropsteinshelli á svæðinu. Fréttastofa slóst í för með stjórnendum félagsins 20. september síðastliðinn, til þess að skoða þessa einstæðu náttúruperlu. Sjá má innslagið í spilaranum hér að ofan.

„Þetta er alveg magnað fyrirbæri, og í rauninni einstakt á heimsvísu. Það er ekkert öðruvísi. Svona finnst ekkert í veröldinni, það er svo einfalt,“ segir Guðni Gunnarsson, formaður Hellarannsóknafélags Íslands.

Hvað er það sem gerir hellinn svona einstakan?

„Það er bara magnið af dropsteinunum og hvað þeir eru stórir og magnaðir og hvernig þeir fylla hellinn. Maður sér ekkert svona annars staðar í veröldinni.“

Engar skemmdir

Litlar sem engar mannaferðir hafa verið um hellinn, þá sérstaklega innsta hluta hans þar sem allar dropsteinsmyndanir eru heilar.

„Þessi hellir sem við erum í, hann er algjörlega ósnortinn, það eru engar skemmdir að sjá hér. Ekki ennþá,“ segir Guðni.

Það er algjörlega magnað að fara um hellinn, og eins gott að fara varlega. Þar eru dropsteinar við hvert einasta fótmál og þeir brotna við minnstu snertingu. Hið sama á við um dropstráin sem sjá má í loftinu í nánast öllum hellinum.

Hvað er þessi hellir gamall?

„Hann er 2.500 ára gamall og þessar myndanir hafa staðið hérna í öll þessi ár, staðið hérna í myrkrinu ósnortnar. Þar til nú, þangað til við fórum að þvælast hingað inn,“ segir Guðni.

Og nú er hætt við því að fleiri fari að þvælast inn í hellinn. Í lok árs 2017 tók Landsvirkjun jarðvarmavirkjunina Þeistareykjastöð í notkun. Þá var lagður vegur í gegnum hraunið, sem eðli málsins samkvæmt eykur umferð um það. 

„Það er ekki gott hvað vegurinn er kominn nálægt hellunum og það stefnir þeim í hættu. Þeir eru mjög berskjaldaðir fyrir ágangi og það verður eitthvað að gerast. Að gera ekki neitt er ekki í boði.“

Ef það kemur margt fólk í þennan helli, á hann þá á hættu að skemmast?

„Þá mun þetta allt hverfa. Það er bara þannig. Þetta mun hverfa eitt af öðru og hann verður bara ónýtur.“

Sem er það sama og gerðist í hellinum Leiðarenda sem fréttastofa sagði frá í maí, en þar er búið að brjóta nánast alla dropsteina. Dæmi eru um að slíkir steinar hafi gengið kaupum og sölum á netinu.

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Hér má sjá ítarlegri útgáfu af viðtalinu við Guðna Gunnarsson.

„Þetta er ekki hellir fyrir ferðamenn eða almenning,“ segir Árni B. Stefánsson, formaður verndunarnefndar Hellarannsóknafélagsins. „Þetta er hellir sem þarf að loka og stýra aðgengi að. Það þarf aðgengisstýringu á hann og leiðsögn og fræðslu. Þannig má gera þetta mjög áhrifamikið fyrir almenning, ferðamenn og skólabörn.“

Árni segir að það kosti 10 til 15 milljónir að loka hellinum með járnhlera. Hengilás væri á hleranum þannig að hægt væri að stýra aðgengi að honum. Hellum hefur áður verið lokað með þessum hætti hér á landi. 

Strikað yfir texta á skiltum

Samhliða opnun Þeistareykjavirkjunar setti Landsvirkjun upp skilti þar sem mátti meðal annars lesa um hellana á svæðinu. Hellarannsóknafélagið fór fram á það við fyrirtækið að það tæki skiltin niður, til þess að vernda hellana, og var það gert nokkru síðar. Þó eru ekki öll skiltin horfin því skammt frá Þeistareykjavirkjun hefur Landsvirkjun komið upp upplýsingaskiltum um svæðið, og hvað megi finna á því. Þar er meðal annars texti um dropsteinshellana sem má finna í Þeistareykjahrauni. Strikað hefur verið yfir textann, en það er samt hægt að lesa hann.

„Landsvirkjun er ábyrg fyrir sínum gerðum, þeir leggja veg þvert á ráðleggingar, rétt við hellana,“ segir Árni. „Og þeir vekja athygli á hellunum með skiltum. Þannig að Landsvirkjun er gerandi í þessu máli. Og hellarnir eru friðlýstir sem slíkir samkvæmt nýjustu náttúruverndarlögum. Og dropsteinarnir hafa verið friðlýstir í 60 ár. Þetta eru einhverjar elstu friðlýsingar Náttúruverndarráðs, og á sér stað strax 1958, rétt á fyrstu árum Náttúruverndarráðs. Við berum samfélagslega ábyrgð á þessum steinum, við erum búin að gangast í loforð gagnvart þessari náttúru, að verja þetta með friðlýsingum. Og við getum ekki leyft okkur að gera ekki neitt. Það er bara óábyrgt.“

Hvað viljið þið að Landsvirkjun geri?

„Við viljum að hún kosti lokun hellanna og kosti kortmælingu og uppmælingu hellanna. Þetta er bara hluti af þeirri náttúru sem Landsvirkjun er að nýta og forsendan fyrir því að hægt sé að nýta þessa hella og sýna þá er annars vegar að skjalfesta þá og hins vegar að loka ákveðnum hellum og stýra aðgengi að þeim.“

En hvers vegna eruð þið tilbúnir til þess að sýna almenningi innan úr þessum helli núna?

„Þetta er í rauninni nauðvörn. Hellirinn er kominn í seilingarfjarlægð við veg. Hann er stutt frá vegi og svo hafa komið vísbendingar og upplýsingaskilti sem benda á að í þessu hrauni séu dropsteinshellar. Þannig að það er bara tímaspursmál hvenær staðsetningin verður komin á netið og þá er þetta á augnabliki bara horfið.“

Hafið þið átt í viðræðum við Landsvirkjun um þetta?

„Já. Í tvö ár.“

Hvernig hefur það gengið?

„Ekkert.“

Hafið þið eitthvað rætt við sveitarfélagið?

„Já við erum búin að eiga í töluverðum samræðum við Þingeyjarsveit, oddvitann, sveitarstjórann, skipulagsfulltrúann og alla.“

Hvað segja þeir?

„Þeir vísa á ráðuneytið, þeir vísa á Umhverfisstofnun, en hvorugur aðilinn er fær um að eiga við þetta.“

Hefurðu talað við umhverfisráðuneytið um þessi mál?

„Já já. Ég hef gert það. Umhverfisráðherrann.“

Og er fátt um svör þar?

„Já.“

Hellirinn er nú kominn undir snjó og Hellarannsóknafélagið vill hvetja fólk sérstaklega til þess að gera ekki tilraun til þess að finna hann.

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Hér má sjá ítarlegra viðtal við Árna B. Stefánsson.