Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fundi landbúnaðarráðherra og fulltrúa bænda frestað

06.12.2019 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fundi Kristjáns Þórs Júlíssonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, með fulltrúum bænda og atvinnurekenda hefur verið frestað. Greint var frá því í hádegisfréttum að þeir myndu funda eftir hádegi í dag til að ræða frumvarp um breytingar á búvöru- og tollalögum, sem hafa verið harðlega gagnrýnd. 

Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, var fyrirvari fundarins einfaldlega of stuttur. Fundi hafi því verið frestað. Þau vilji að sem flestir geti mætt á fundinn. Ekki hefur verið ákveðið hvenær fundurinn verður á dagskrá en það verði einhvern tímann eftir helgi. 

Tíu hagsmunasamtök úr ýmsum áttum, neytendur, bændur og atvinnurekendur, hafa snúið bökum saman í andstöðu við boðaðar breytingar á búvöru- og tollalögum. Stefnt er að því að fulltrúar þeirra fari yfir málið á umræddum fundi með landbúnaðarráðherra. Hagsmunasamtökin eru sammála um frumvarpið eigi ekki að samþykkja í núverandi mynd en það felur meðal annars í sér breytingu á úthlutun tollkvóta. Samtökin óska eftir því að koma að frekari vinnu við frumvarpið.