Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fundi hjá Ríkissáttasemjara slitið - verkföll á morgun

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
 Mynd: Fréttir
Fundi Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins hjá Ríkissáttasemjara, sem hófst klukkan ellefu í dag, hefur verið slitið. „Við vorum sammála um að vera ósammála,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. Næst verði fundað á þriðjudaginn. Blaðamenn leggja því niður störf á morgun í tólf tíma, frá klukkan 10 til 22 og svo aftur á fimmtudaginn í næstu viku.

Hjálmar segir að verkfallsaðgerðir standi á morgun og hafi verið boðaðar. Þeim hafi verið frestað í síðustu viku til að freista þess að koma kjaradeilunni úr þeim hjólförum sem þær hafi verið í. Það hafi þó ekki tekist. 

Vinnustöðvun morgundagsins nær til blaðamanna á netmiðlum ljósmyndara og tökumanna fyrirtækja sem SA semur fyrir.

Sammála um að vera ósammála

„Við vorum sammála um að vera ósammála,“ segir Hjálmar í samtali við fréttastofu aðspurður um hvernig fundi lauk. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir þessi orð lýsa stöðunni ágætlega.

Ekki megi greina frá því sem fór fram á fundinum. Hann geti þó sagt að farið hafi verið heildstætt yfir stöðuna og rætt um framhaldið. Hver fundur færir okkur vonandi nær lausn, sagði Halldór, aðspurður um hvort hann væri bjartsýnn fyrir fund þriðjudagsins.

Felldu kjarasamning við SA

Félagar í Blaðamannafélagi Íslands felldu nýgerðan kjarasamning félagsins við Samtök atvinnulífsins í atkvæðagreiðslu á þriðjudaginn. Rúmlega sjötíu prósent greiddu atkvæði gegn samningnum eða 105 af þeim 147 sem kusu. 

Hjálmar segir að þrátt fyrir að kjarasamningurinn hafi verið felldur og ljóst sé að afdráttarlaus útfærsla lífskjarasamningsins henti ekki blaðamönnum og þeim hugnist hún ekki, hafi atvinnurekendur ekki komið með neitt nýtt að borðinu. Það sé fráleitt og óskiljanlegt hvernig atvinnurekendur hafi „tæklað“ þessar sanngjörnu kröfur blaðamanna. 

Kennir formanni BÍ um uppsagnir

Fimmtán manns á ýmsum deildum Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, var sagt upp störfum í dag. Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri viðskiptablaðs Morgunblaðsins, segir að uppsagnirnar megi rekja til óraunhæfra krafna, verkfallsaðgerða Blaðamannafélagsins og Hjálmars Jónssonar formanns blaðamannafélagsins. Hann fer ófögrum orðum um Hjálmar og samninganefnd félagsins á Facebook.

Hjálmar segist hafa ekkert við Stefán Einar að segja. Óöryggið sem launafólk á almennum launamarkaði þurfi að búa við sé hörmulegt og þyngra en tárum taki. Óháð verkfallsaðgerðum blaðamanna hafi því miður oft komið til uppsagna og viðvarandi tap hafi verið á miðlinum. Vitað sé af erfiðleikum í þessum bransa en það breyti því ekki að þessir miðlar þurfi að greiða laun og hækka laun blaðamanna með sama hætti og laun annara í þessu samfélagi eru hækkuð, segir hann.

Kröfur blaðamanna séu langt innan marka lífskjarasamningsins. Hann hafi boðið það fram að óháð mat fari fram á kröfum BÍ. „Því tilboði mínu var ekki tekið en það stendur,“ segir hann. 

Fréttin hefur verið uppfærð.