Fundi frestað vegna deilna um formann

17.09.2019 - 09:31
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis var frestað eftir örstutta stund í morgun. Eina málið á dagskrá var kosning formanns nefndarinnar. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, gegndi því starfi en vék eftir Klausturmálið. Þá tók Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tímabundið við formennsku en kjósa átti nýjan formann í dag. Þegar að því kom stakk fulltrúi úr minnihlutanum upp á Karli Gauta Hjaltasyni, meðflokksmanni Bergþórs, og var fundið þá slitið í snarhasti.

Miklar deilur hafa staðið um formennsku Bergþórs í umhverfis- og samgöngunefnd vegna framgöngu hans og annarra þingmanna Miðflokksins á Klausturbar. Það varð til þess að Bergþór tók ekki aftur við formennsku þegar hann sneri aftur úr leyfi sem hann fór í eftir að upp komst um samtölin á Klausturbar. Fulltrúar minnihlutans hafa verið andvígir því að hann taki aftur við formennsku.

Stakk upp á Karli Gauta

Fundur í umhverfis- og samgöngunefnd var settur klukkan níu í morgun. Fyrsta málið var kosning formanns og þar á eftir aðeins liðurinn önnur mál. Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi Pírata, stakk þá upp á Karli Gauta í stað Bergþórs. Samkvæmt samkomulagi stjórnarandstöðuflokkanna á Miðflokkur formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd.

„Samkomulagið snýst um það að það sé Miðflokksmaður í þessum formennskustól,“ segir Björn Leví. „Miðflokkurinn hefur ekki viljað leggja til annan en Bergþór Ólason en það er annar Miðflokksmaður í nefndinni. Þegar allt kemur til alls er það nefndin sjálf sem kýs sér formann. Það brýtur ekkert samkomulag þó að Bergþór verði ekki formaður.

Við þetta frestaði Jón Gunnarsson, formaður nefndarinnar, fundi skamma stund meðan þingmenn réðu ráðum sínum eftir þessa óvæntu uppákomu. Fundur var svo settur aftur en þá óskaði Líneik Anna Sævarsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, eftir því að meirihlutinn kæmi saman á fundi. Var fundi þá slitið.

Gafst ekki tími til að afþakka

Karl Gauti segir að ekkert hafi verið rætt við sig um þetta áður en Björn Leví bar tillöguna upp. „Ég hafði ekki einu sinni tækifæri til að hafna því,“ segir hann um tillöguna um að hann yrði formaður. Það hefði hann þó gert. „Við vorum með fínan kandídat í þetta.“

„Það er verið að grugga vatnið,“ segir Karl Gauti um tillögu Björns Leví.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV