Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fundað á Alþingi í dag

28.12.2017 - 12:31
Mynd með færslu
Logi Einarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, mælir fyrir nefndarálitinu. Lengst til hægri á myndinni er Guðjón Brjánsson, sem lagði fram þingsályktunartillöguna. Mynd: RÚV
Allir flokkar í minnihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggja til hækkun barnabóta og vaxtabóta fyrir þriðju umræðu um bandorminn. Þingfundir verða á Alþingi í dag og á morgun, í fyrsta skipti á þessum árstíma í átta ár.

„Það sem að sjálfsögðu ber hæst eru þau frumvörp sem koma til þriðju og síðustu umræðu á morgun en það eru fjárlög næsta árs og fjáraukalög þessa árs. Til þess að samfélag okkar virki og stjórnsýslan öll þá þarf að samþykkja þessi frumvörp fyrir áramót,“ sagði Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður í hádegisfréttum ums töðuna á þingi milli jóla og áramóta. „Efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi núna rétt fyrir fréttir hinn svokallaða bandorm úr nefndinni og kemur hann sennilega til þriðju og síðustu umræðu síðar í dag. Minnihluti nefndarinnar leggur sameiginlega fram breytingartillögur um hækkun barnabóta og vaxtabóta sem samtals nemur rúmum þremur milljörðum. Síðan þarf að afgreiða nokkur minni frumvörp og frumvarp um ríkisborgararétt sem allsherjarnefnd afgreiddi úr nefndinni í morgun, 125 umsóknir bárust og leggur nefndin til að 75 fái ríkisborgararétt.“

Fundurinn í dag hefst klukkan hálftvö en um klukkan tvö verður sérstök umræða um fátækt á Íslandi þar sem málshefjandi er Inga Sæland formaður Flokks fólksins og til svara verður Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og er alveg viðbúið að þessi umræða verði snörp.

Það er sjaldgæft að þing fundi milli jóla og nýárs. „Síðast þegar fundað var á þessum tíma var það árið 2009 þegar Icesave frumvarpið var í algleymingi og þá var fundað til miðnættis 30. desember og síðan kom þing saman í byrjun janúar vegna þjóðaratkvæðagreiðslu sem varð í kjölfarið. Og þar áður hafði þing ekki fundað milli hátíða sennilega í um tvo áratugi,“ sagði Jóhanna í hádegisfréttum.