Funda um ný drög að samgöngusamkomulagi

19.09.2019 - 07:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Drög að breyttu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu var sent bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segist ekki hafa umboð til að skrifa undir samkomulagsdrögin eins og þau líta út núna. 

Beðið hefur verið eftir að samkomulagi yrði kynnt og samkvæmt heimildum fréttastofu stóð til að kynna það í síðustu viku en ekkert varð af því. Þá kom fram að til stæði að taka upp veggjöld á helstu stofnæðum höfuðborgarsvæðisins til að fjármagna samgönguframkvæmdir, þar með talið borgarlínu. Fréttastofa náði tali af Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra í Garðabæ, nú á áttunda tímanum í morgun þar sem hann var á leið til fundar með stýrihópi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. 

„Við erum búin að fá drög og erum að fara bara yfir það núna. Það eru ný drög getum við sagt. Við þurfum að ráða ráðum okkar hvernig við tökum á því. Það hafa orðið breytingar á því sem við höfum áður verið með og við erum akkúrat að fara að funda núna,“ segir Gunnar.

Eru þetta miklar breytingar?

„Ég get ekki farið út í það efnislega en við eigum eftir að setjast yfir það. Það eru þarna setningar í þessu sem maður getur ekki alveg ... eða hefur ekki umboð til þess að skrifa undir ef þær eiga að vera þannig,“ segir Gunnar.

Hvenær bárust ykkur þessu drög?

„Bara í gærkvöldi,“ segir Gunnar.

Er einhver tímarammi á þessu? Hvað hafið þið langan tíma til þess að fara yfir þetta?

„Nei, við látum ekki pressa okkur í neinn tíma,“ segir Gunnar.

Er talað um upphæð og veggjöld í þessum drögum sem þú fékkst í gærkvöldi?

„Já, já, það hefur alltaf verið talað um það. Við töldum okkur vera komin með samkomulag. Þannig að það var bara búið að ramma þetta allt saman inn. Síðan er þetta að taka einhverjum breytingum alveg í lokin sem við erum akkúrat að fara yfir núna,“ segir  Gunnar. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi