Fullur gámur af sjúkrahúsbúnaði frá Akureyri til Afríku

04.02.2020 - 22:30
Sjúkrahúsið á Akureyri sendi í dag fullan gám af sjúkrahúsbúnaði til Sierra Leone. Búnaðurinn, sem er að sögn sjúkrahússins í góðu ástandi, öðlast nýtt líf á vesturströnd Afríku.

Önnur gjöfin frá Akureyri

Þetta er í annað sinn sem Sjúkrahúsið á Akureyri sendir búnað til Sierra Leone, sem er eitt fátækasta land í heimi. Árið 2016 voru send 22 rúm sem enn eru í góðri notkun. 

„Þetta eru 41 sjúkrarúm, fæðingarrúm, dýnur í öll rúmin, skoðunarbekkir, göngugrindur og bara allt sem var heilt og hægt að koma í notkun annars staðar.  Við erum búnir að yfirfara þetta allt saman og vonandi kemur þetta bara til góðra nota.“

Lítill áhugi innanlands

Helgi Haraldsson öryggisstjóri sjúkrahússins segir lítinn áhuga hafa verið á búnaðnum hér á landi.

„Við vildum endilega reyna að koma þessu í not annars staðar. Við reyndum það við nokkra aðila hérna innanlands og það virtist ekki vera áhugi á þessu. Þá fórum við að skoða hvort einhver, í öðrum heimsálfum gæti nýtt þetta.“

Mun nýtast vel á fæðingarheimilum

Regína Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri velgerðarsjóðsins Auroru, segir að búnaðurinn komi að góðum notum en hann verður að mestu nýttur á fæðingarheimili. 

„Ástandið er náttúrlega bara alls ekkert gott hér. Það er bæði ekkert mikið um spítala og þeir eru mjög illa búnir að mörgu leyti. Fæðingarheimilum þótti sérstaklega gott að geta haft rúm þar sem væri svona, hægt að setja upp bríkina. Þar sem konur sem fara inn á spítala til að fæða börn eru oft mjög veikar. Með fæðingareitrun og krampa og eru því sífellt að detta úr þeim rúmum sem eru á staðnum. Þannig að þess vegna þótti það mjög gott að fá nýtískuleg rúm, að mati fólksins hér,“ segir Regína. 

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi