Fullkomlega eðlilegt að gráta yfir málinu

10.10.2019 - 20:19
Mynd: Skjáskot / RÚV
Guðmundar- og Geirfinnsmálið hefur í fjörutíu ár varpað löngum skugga og það er fullkomlega eðlilegt að gráta yfir því segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún segir að óeðlilegra væri að gráta ekki yfir því.

Katrín var gestur Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur í Kastljósi í kvöld. Þar ræddi hún meðal annars frumvarp sitt um bótagreiðslur til handa fyrrverandi sakborningum og aðstandendum látinna fyrrverandi sakborninga í málinu. 

Katrín sagði að Guðmundar- og Geirfinnsmálið væri erfitt, sérstaklega vegna þess að það snúist um miklu stærri hluti en stjórnmál. „Það snýst um það hvernig stjórnvöld sem nú sitja geta sýnt yfirbót gagnvart því sem gerðist fyrir áratugum og það er vandasamt verkefni.“ Frumvarpið á langan aðdraganda, sagði Katrín. Hún vísaði til vinnu í ráðherratíð Ögmundar Jónassonar sem leiddi á endanum til breytinga á lögum um endurupptöku dómsmála svo þau næðu ekki aðeins til fyrrverandi sakborninga heldur líka til aðstandenda fyrrverandi sakborninga.

Forsætisráðherra beygði af í ræðustól Alþingis í fyrrakvöld í fyrstu umræðu um frumvarpið. „Mér finnst það fullkomlega eðlilegt að gráta yfir þessu stóra máli, og í raun og veru miklu óeðlilegra að gráta ekki yfir því. Þetta er mál sem er einstakt og hefur varpað löngum skugga, 40 ára gamalt óleyst sakamál sem hefur varpað löngum skugga, ekki bara sá angi þess sem er til umfjöllunar í þessu frumvarpi heldur margir aðrir angar og margir sem hafa átt um sárt að binda. Ég er ánægð með það að þótt ég hafi verið lengi í pólitík er ég ennþá bara tilfinningavera.“

„Þó maður sýni tilfinningar þá ráða þær ekki för,“ sagði Katrín um frumvarp sitt um bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Hún sagði að það grundvallaðist á vinnu sáttanefndar sem átti að ræða við fyrrverandi sakborninga og aðstandendur fyrrverandi sakborninga um bætur. „Það er verið að renna lagastoð undir það að ríkið geti staðið að því að greiða hér fjárhagslegar bætur því þær eru svo sannarlega hluti af þeirri yfirbót sem það á að sýna.“

epa07910273 A picture taken from Turkish territory shows smoke rising from targets inside Syria during bombardment by Turkish forces at Ras al-Ein town, in Ceylanpinar, in Sanliurfa, Turkey 10 October 2019. Turkey has launched an offensive targeting Kurdish forces in north-eastern Syria, days after the US withdrew troops from the area.  EPA-EFE/SEDAT SUNA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Reykur stígur upp af sýrlensku landsvæði eftir árásir Tyrkja á Kúrda.

Skelfilegir atburðir í Sýrlandi

Forsætisráðherra ræddi einnig viðbrögð við innrás Tyrkja í Sýrland og árásir þeirra á sveitir Kúrda. „Því miður er það svo að þessi hernaður mun bitna á almennum borgurum. Þessi hernaður mun verða til þess að auka enn á flóttamannastrauminn. Þessi hernaður gæti orðið til þess að leysa úr læðingi aftur liðsmenn samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Það er ekki bjart yfir þessari stöðu núna.“

„Þetta er skelfilegt að sjá,“ sagði Katrín. Íslensk stjórnvöld komu í dag harðri gagnrýni á framgöngu Tyrkja á framfæri við þarlend stjórnvöld í dag. Katrín sagði að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra taki málið upp í ríkisstjórn á morgun og ræði það í utanríkismálanefnd eftir helgi. Hún sagði óljóst hvort og þá hvernig það yrði rætt á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, sem Tyrkir eru aðilar að.

Hér má sjá Kastljósþátt kvöldsins í heild sinni.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi