Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fugl Utangarðsmanna floginn

Mynd með færslu
 Mynd:

Fugl Utangarðsmanna floginn

10.02.2015 - 22:06
Hljómsveitin Utangarðsmenn mun ekki koma saman aftur í sinni upprunalegu mynd. Þetta sagði Bubbi Morthens í Kastljósi í kvöld. Þar var rætt við hann um fyrirhugaða tónleika hans og hljómsveitarinnar Dimmu þar sem spila efni platnanna Geislavirkir með Utangarðsmönnum og Lili Marlene, með Das Kapital.

Það tók Bubba Morthens heil þrjátíu ár að átta sig á því að plata hljómsveitarinnar Lili Marlene með hljómsveit hans Das Kapital væri nógu góð til að hún yrði flutt í heild sinni á tónleikum. Platan sem kom út í árslok 1984 var einungis einu sinni flutt í heild sinni á tónleikum. Með Bubba í Das Kapital voru meðal annars Jakob Smári Magnússon bassaleikari sem lýsti skammvinnu lífi sveitarinnar svona:

"Við urðum aldrei vinsælir á meðan við störfuðum. Bandið var leyst upp skömmu síðar þegar Bubbi fór í meðferð. Þetta var semsagt stutt, hratt og oft dáldið gaman."

Platan inniheldur lög eins og Blindsker, Svartur Gítar og Leyndarmál frægðarinnar, sem öll hafa verið vinsæl. Það tók þó Bubba þrjátíu ár að taka plötuna í sátt og flytja efni hennar í heild sinni á tónleikum. Það mun hann gera ásamt hljómsveitinni Dimmu á tónleikum á næstunni ásamt því að flytja efni plötunnar Geislavirkir með Utangarðsmönnum. Meðlimir Dimmu eru allir miklir aðdáendur beggja þessara sveita og Bubba og hugsuðu sig því ekki lengi um þegar Bubbi óskaði liðsinnis þeirra. Kastljós kíkti á æfingu hópsins á dögunum og ræddi við liðsmenn Dimmu og Bubba, sem sagði söguna af tilurð hins tregafulla óðs síns, Blindsker heima hjá þáverandi félaga sínum Franklín Steiner. Spurningunni um hvort ekki hafi komið til greina að flytja plötu Utangarðsmanna með upprunalegu hljómsveitinni, svarar Bubbi á þá leið að sú sveit muni ekki koma saman aftur. Fuglinn sá er sem sagt floginn.

[email protected]