Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Frumvarp um verðtryggingu kynnt á morgun

14.08.2016 - 20:12
Búist er við að forsætisráðherra og fjármálaráðherra kynni á morgun ný frumvörp sem dragi úr vægi verðtryggingar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins hefur ekki séð frumvörpin en segir að stjórnarandstaðan eigi ekki að þvælast mikið fyrir málinu vilji hún kosningar í lok október.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, var gestur Þjóðbrautar á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í dag. Þar kom fram að frumvarp um verðtryggingu yrði kynnt á næstu dögum. Það byggi á tillögum sérfræðinganefndar sem skilaði niðurstöðum sínum í janúar 2014. Tillögur nefndarinnar voru þær að óheimilt yrði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána yrði lengdur í allt að 10 ár, takmarkanir yrðu gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána og hvatar auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána. Ekki var lagt til að verðtryggingin yrði afnumin með öllu. 

Bjarni Benediktsson vildi ekki tjá sig um frumvarpið í dag.  Sigmundur Davíð hafði ekki séð frumvörpin.  

„Það verður mjög áhugavert að sjá hvar þetta lendir því það er búið að vera mikil vinna í gangi í þrjú ár við að koma saman tillögum þannig að þetta er mjög spennandi að bíða eftir því hvað kemur út úr því."
  
„Er ekkert óvanalegt að þú sért ekkert með í ráðum sem formaður annars stórnarflokksins?

Ja málið náttúrlega fór til fjármálaráðuneytisins og ákveðins hóps sem hefur verið að vinna tillögur að undanförnu og ég geri þá ráð fyrir því að menn séu að vinna þetta áfram á þeim nótum sem lagt var upp með á meðan ég var að ýta á eftir þessari vinnu."

Ekki er verið að afnema verðtrygginguna eins og rætt hefur verið um heldur verið að takmarka vægi hennar í framtíðinni.  

„Enn og aftur, ég á eftir að sjá málið hvernig það lítur út núna."

Já en þú hlýtur nú að geta sagt, er verið að afnema verðtrygginguna? 

Sú leið sem að unnið var út frá síðast þegar ég vissi snerist um það að afnema verðtrygginguna með því að gera aðra kosti vænlegri hagkvæmari þannig að að menn væru samtímis að taka á nokkrum vandamálum.  Í fyrsta lagi í því að losna við verðtrygginguna, í öðru lagi að vinna  á vaxtaokrinu sem ég kalla svo og í þriðja lagi gera ungu fólki betur kleift að eignast húsnæði.  Þetta fer allt mjög saman.  Þannig að afnám verðtryggingar snýst um það að gera aðra kosti betri."

Sigmundur segist vona að stjórnarandstaðan taki málinu þannig að hægt verði að klára það fyrir kosningar.

„Þetta er augljóslega eitt af stóru málunum þannig að ég geri ráð fyrir því að stjórnarandstaðan vilji kosningar á þessum degi þvælist ekki mjög mikið fyrir."

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV