Frumvarp um nýja stjórnarskrá lagt fram

24.10.2019 - 15:41
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vonast til þess að frumvarp um nýja stjórnarskrá fái þinglega meðferð og að greitt verði atkvæði um það. Hann mælti fyrir frumvarpi til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar og Pírata síðdegis. Frumvarpið er flutt í þriðja sinn, óbreytt.

„Í dag, fjórum dögum eftir að sjö ár voru liðin frá afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2019, leggja Samfylkingin og Píratar því þetta frumvarp fram og leggja til að það verði haldið áfram vinnu við setningu nýrrar stjórnarskrár þar sem frá var horfið vorið 2013,“ segir Logi og lagði áherslu á að þjóðin væri stjórnarskrárgjafinn. „Þingmenn og leiðtogar þjóðarinnar verða og ættu, að minnsta kosti, að virða ákvörðun þeirra sem valdið hafa, til þess að setja þeim leikreglur. Það er skylda kjörinna fulltrúa að leiða nýja stjórnarskrá í lög og virða þannig vilja þjóðarinnar í kosningum.“

Heildarendurskoðun á tveimur kjörtímabilum

Logi segir heildarendurskoðun stjórnarskrár komna inn á borð formanna flokkanna að frumkvæði forsætisráðherra.  Á minnisblaði forsætisráðherra sé talað um heildarendurskoðun stjórnarskrár á tveimur kjörtímabilum. Í formannanefndinni, hafi enginn neitunarvald, en þar séu ólíkar skoðanir um ákveðin ákvæði og langt í að hægt verði að leggja fram tillögu sem breið sátt sé um.  

Logi segist ætla að starfa áfram í formannanefndinni og frumvarpið sé sú leið sem þau vilji fara og byggi á vinnu stjórnlagaráðs. „Ég held þess vegna að það sé gott að fá þetta frumvarp inn á þing til umræðu í sal og á nefndarfundum, svo ekki sé talað um að fá inn umsagnir og gesti til nefndarinnar. Fæstir af þeim sem sitja hér nú, gerðu það á kjörtímabilinu 2009 til 2013 og okkur er hollt að fara vel yfir þessa tillögur og greiða loks atkvæði um þær að yfirferð lokinni.“

Logi leggur til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar til frekari umræðu og loks til afgreiðslu í þingsal. 

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ekki hafi verið víðtæk sátt um tillögur stjórnlagaráðs og þær gagnrýndar bæði utan þings og innan. Þá benti hann á að margt hafi gerst frá því þær voru lagðar fram. Til dæmis hafi þrisvar verið kosið til Alþingis. Núgildandi stjórnarskrá væri heildstæð og hægt að gera á henni breytingar og bæta við hana. Óþarfi sé að taka hverja einustu grein stjórnarskrárinnar og breyta og bæta síðan við 39 greinum til viðbótar eins og stjórnlagaþing hafi gert. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki einir lagst gegn nýrri stjórnarskrá, því Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki meirihluta í þinginu og hafi ekki haft frá upphafi málsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Logi segir það rangt að verið sé að kollvarpa stjórnarskránni. Þarna sé unnin nauðsynleg vinna. „Mér væri það að meinalausi að vinna þetta á formannafundum ef farið væri eftir minnisblaði forsætisráðherra, og allir að vinna í anda tillögu stjórlangaráðs.“ Ekki sé verið að gera það og því sé þetta annar leikur sem verið sé að leggja fram. 

Skrifuð á hremmingartímum 

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði í sinni framsögu að ný stjórnarskrá væri gríðarlega lýðræðisumbót. Þar væri umhverfisvernd til dæmis sett í fyrsta sæti. Stjórnarskráin væri skrifuð með aðkomu þjóðarinnar. Krafan sé skýr og því lagt til að Alþingi klári málið. 

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, veitti andsvar og sagðist ekki vera á móti breytingum á stjórnarskrá. Það væri hinsvegar erfitt að tala fyrir hönd þjóðarinnar og segja hana vilja nýja stjórnarskrá. Ný könnun benti á hið gagnstæða. Ný stjórnarskrá hefði verið unnin á hremmingartímum þegar þjóðin hafi verið í áfalli. Stjórnmálamenn hafi þá eytt tíma í að gjörbreyta stjórnskipan Íslands og ný stjórnarskrá í grunninn verið samin á einu sumri. Þjóðin hefði ekki kallað eftir þessu, frekar hafi verið beðið um breytingar á þjóðaratkvæðagreiðslum og auðlindaákvæði.  Brynjar leggur áherslu á að þetta verði ekki gert þannig að ákveðinn hópur leggi þetta fram grunnplagg og leyfi ákveðnar ábendingar. Að allar breytingar verði gerðar í þverpólitískri sátt, annars verði þetta ekki samfélagssáttmáli, heldur meirihlutinn að berja minnihlutann niður. 

Halldóra segir að stjórnskipunar og eftirlitsnefnd sé vettvangurinn til að leggja til breytingar á tillögunum. Tekið hafi verið tillit til málefnalegra athugasemda. 

Óvirk grein veiti færi á gerræði

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, rifjaði upp að samflokksmaður hans, Helga Vala Helgadóttir, og Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hafi gert 30. grein að umtalsefni þegar málið kom síðast fyrir þingið. Í greininni getur forseti veitt, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hafi verið eftir hingað til. Guðmundur segir að greinin gefi færi á því að valdasjúkur forseti taki sér völd eða þá ríkisstjórn með veikan forseta. Sú grein hafi aldrei verið virkjuð, en það sama hafi mátt segja um 26. grein stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæði, áður en Ólafur Ragnar Grímsson virkjaði hana í sinni forsetatíð.

Nýja stjórnarskráin hafi verið unnin í löngu og góðu ferli, þar sem vandað hafi verið til verka og unnið af heilindum og sáttfýsi. Óvissa fylgi núverandi stjórnarskrá. Með þeirri nýju sé viðleitni til að koma á meiri formfestu, meiri lögfestu í íslensku samfélagi. 

Birgir segir að núgildandi stjórnarskrá hafi verið breytt í sjö áföngum síðan hún tók gildi. Meirihluti núgildandi ákvæða hafi verið breytt frá árinu 1944, þó grunnurinn sé sá sami. Sjálfstæðisflokkurinn hafi ljáð máls á því að breyta einstökum köflum, eins og þeim sem fjalla um forsetann, bæta við eða fella út greinar, en ekki talið ástæðu til heildarendurritunar eins og stjórnlagaráð gerði ráð fyrir. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hvatti forsætisráðherra til að virða vilja þjóðarinnar og greiða götu frumvarpsins gegnum þingið.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi