Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Frumvarp um Miðhálendisþjóðgarð í samráðsgátt

18.12.2019 - 18:08
epaselect epa07780048 A hiker makes their way to where Okjoekull glacier will be commemorated after it was lost to climate change, in in west-central Iceland, 18 August 2019. The plaque, in Icelandic and English language, commemorating the Ok (short for Okjoekull) glacier, is named 'A Letter to the Future'. Researchers hope that the plaque, which is the first of its kind in the world, will draw attention to the climate crisis.  EPA-EFE/STR
 Mynd: STR - EPA
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt tvö frumvörp, um Hálendisþjóðgarð og um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á að stjórnun Hálendisþjóðgarðs sé bæði hjá ríki og viðkomandi sveitarfélögum. Gert er ráð fyrir að sérstök stjórn, sem í sitji ellefu stjórnarmenn, fari með stjórn þjóðgarðsins og að hún verði að meirihluta skipuð fulltrúum sveitarfélaga, auk félagasamtaka og hagsmunaaðila.

Þá verði þjóðgarðinum skipt upp í sex rekstrarsvæði og yfir hverju þeirra sérstakt umdæmisráð, skipað fimm fulltrúum sveitarfélaga, auk fulltrúum frá útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, Bændasamtökum Íslands og ferðaþjónustuaðilum.

Tillit tekið til athugasemda

Skiptar skoðanir hafa komið fram í ferli málsins. Meðal annars hafa sveitarfélög innan þjóðgarðsmarka og orkufyrirtæki gert athugasemdir við fyrirætlanirnar.  Nefnd sem skipuð var í apríl árið 2018 skilaði ráðherra skýrslu í byrjun mánaðar. Þá sagði umhverfisráðherra að tekið hefði verið tillit til þeirra athugasemda.

Í skýrslunni segir meðal annars að almenn mörk þjóðgarðsins miðist við þjóðlendur og friðlýst svæði á miðhálendinu, þar með talinn Vatnajökulsþjóðgarð. Hins vegar er gert ráð fyrir að núverandi verndarstig og mörk Vatnajökulsþjóðgarðs haldist sem slík innan stærri hálendisþjóðgarðs.  Þá segir nefndin að ljóst sé að við jaðra þeirra marka sem hún leggur til séu ýmis áhugaverð svæði sem gætu orðið hluti af þjóðgarðinum vilji eigendur þeirra það.  

„Á miðhálendinu má nú þegar finna stór svæði sem njóta verndar. Má þar nefna Vatnajökulsþjóðgarð, Þjórsárver, Landmannalaugar og Hveravelli. Með stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands er gert ráð fyrir að stjórnun og stefna fyrir svæðið verði samræmd með markvissum og heildstæðum hætti með ríkri aðkomu nærliggjandi sveitarfélaga.“ segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu

Stjórnun bæði hjá ríki og sveitarfélögum

Þar segir einnig að í frumvörpunum sé lögð áhersla á að stjórnun Hálendisþjóðgarðs sé bæði hjá ríki og viðkomandi sveitarfélögum. Gert sé ráð fyrir að sérstök stjórn, sem í sitji ellefu stjórnarmenn, fari með stjórn þjóðgarðsins og að hún verði að meirihluta skipuð fulltrúum sveitarfélaga, auk félagasamtaka og hagsmunaaðila. Þá verði þjóðgarðinum skipt upp í sex rekstrarsvæði og yfir hverju þeirra sérstakt umdæmisráð, skipað fimm fulltrúum sveitarfélaga, auk fulltrúum frá útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, Bændasamtökum Íslands og ferðaþjónustuaðilum. Gert er ráð fyrir að Hálendisþjóðgarður verði sjálfstæð eining innan nýrrar stofnunar, Þjóðgarðastofnunar.

Með frumvarpi um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða er gert ráð fyrir að í stað tveggja ríkisstofnana, þ.e. Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum, verði sett á fót ein ný ríkisstofnun. Auk þess er gert ráð fyrir að verkefni Umhverfisstofnunar á sviði náttúruverndar verði færð til stofnunarinnar, auk þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sem nú heyrir undir Umhverfisstofnun.

Mynd með færslu
Mörk Hálendisþjóðgarðs