Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Frumvarp: Leyfi ráðherra þarf til kaupa á stórum jörðum

07.02.2020 - 19:44
Mynd: Viðar Hákon Gíslason / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ætlar á næstu dögum að kynna frumvarp um herta löggjöf um jarða- og fasteignaviðskipti. Í frumvarpinu verður kveðið á um skýrari skilyrði fyrir viðskipti aðila utan EES-svæðisins. Þetta kom fram í ræðu hennar á flokksráðsfundi Vinstri grænna sem stendur yfir í Félagsheimili Seltjarnarness í dag og á morgun.

Einnig er kveðið á um aukið gagnsæi um jarðaviðskipti almennt, stórbætta skráningu í landeignaskrá og skyldu til að fá samþykki ráðherra fyrir kaupum á stærri jörðum og í tilfelli aðila sem eiga mikið landflæmi fyrir. „Jafnframt er tekið á eignarhaldi tengdra aðila þannig að ekki sé hægt að fara í kringum regluverkið með kennitölukrúsidúllum,“ sagði Katrín í ræðunni. 

Stjórnvöld þurfa á kveðin stýritæki vegna matmælaöryggis, auðlindanotkunar, fullveldishagsmuna og hagsmuna komandi kynslóða, sagði forsætisráðherra í ræðunni. Hún er vongóð um að sátt náist um frumvarpið á Alþingi enda hafi víða verið kallað eftir hertri löggjöf. Hún bendi á nýlega skoðanakönnun sem sýndi að 84 prósent landsmanna vilja frekari hömlur. 

Til umræðu er að ríkið selji Íslandsbanka og nýti fjármunina til að byggja upp innviði. Katrín kvaðst hlynnt þeirri sölu. Ríkið eigi einnig Landsbankann sem hafi mikilvægu hlutverki að gegna. „Ég tel ekki að það sé endilega skynsamlegt fyrir íslenska ríkið að eiga meirihlutann af íslenska fjármálakerfinu nema við höfum skýr markmið með slíku eignarhaldi. Ég tel að við eigum að horfa til þess að halda Landsbankanum í opinberri eigu og leggja á hann skyldur í samræmi við það, það er að segja eðli málsins samkvæmt.“ Brýn þörf sé á fjárfestingu í innviðum og telji hún að það sé betra fyrir íslenskt samfélag að selja eignarhlut sinn í Íslandsbanka.