Frumsýna dansverk í norsku listasafni

Mynd með færslu
 Mynd: Valdimar Jóhannsson

Frumsýna dansverk í norsku listasafni

03.02.2020 - 15:28

Höfundar

Íslenski dansflokkurinn frumsýndi verkið DuEls eftir Ernu Ómarsdóttur og Damien Jalet á hinu sögufræga Vigeland-safni í Osló um helgina, en verkið er samstarf Íslenska dansflokksins og norska dansflokksins Nagelhus Schia Productions.

DuEls var samið af Ernu Ómarsdóttur, listdansstjóra Íslenska dansflokksins, og hinum belgíska Damien Jalet sem hafa áður starfað saman sem danshöfundar. Á meðal verka þeirra má nefna Transaquania out of the Blue (2009) og Black Marrow (2009), en það síðarnefnda verður endursýnt á Stóra sviði Borgarleikhússins í vor.

Mynd með færslu
 Mynd: Valdimar Jóhannsson

DuEls er unnið út frá sýningarstaðnum sem er í þessu tilfelli myndlistarsafn Gustavs Vigeland sem er einn þekktasti listamaður Noregs. Höggmyndir Vigelands fjalla gjarnan um ævihlaup manneskjunnar með einum eða öðrum hætti og var hann einn af boðberum natúralismans á síðustu öld. Í tilkynningu frá Íslenska dansflokknum segir að DuEls sé samansett úr nýju efni og brotum úr eldri verkum danshöfundanna sem þau endurunnu fyrir sýninguna. Verkið nýtir danslistina til að leysa úr læðingi þá orku sem í styttunum býr og með því að nýta sér goðsagnakennda eiginleika myndastyttanna nái dansararnir að lýsa innri baráttu mannsins við náttúruna, tækni, kyn, ást, trú og dauða.

Mynd með færslu
 Mynd: Valdimar Jóhannsson

Erna Ómarsdóttir er sexfaldur Grímuverðlaunahafi og hefur verið tilnefnd til FAUST-verðlauna, auk þess að starfa með listamönnum á borð við Björk, Sigur Rós, Ragnar Kjartansson og Jóhann Jóhannsson. Damien Jalet er meðal annars þekktur sem höfundur dansatriða í endurgerð ítölsku hrollvekjunnar Suspiria og fyrir Anima, nýjustu dans- og tónlistarmynd söngvarans Thom Yorke úr Radiohead. Meðal þekktustu dansverka hans er „Skid” sem hann samdi fyrir Dansflokk Gautaborgaróperunnar árið 2017. Uppselt er á allar sjö sýningarnar í Vigeland-safninu en stefnt er á að því að færa DuEls til Íslands á næsta ári.

Meðfylgjandi eru myndir frá frumsýningunni sem Valdimar Jóhannsson tók.

Mynd með færslu
 Mynd: Valdimar Jóhannsson
Mynd með færslu
 Mynd: Valdimar Jóhannsson
Mynd með færslu
 Mynd: Valdimar Jóhannsson
Mynd með færslu
 Mynd: Valdimar Jóhannsson

Tengdar fréttir

Dans

Íslenski dansflokkurinn sýnir í Hong Kong

Dans

Dáleiðandi kvöldstund með Dansflokknum

Dans

Skóf af bílnum með tilheyrandi danshreyfingum

Dans

Dansarar syngja sína sögu