Frumleg nálgun á gamalgróna kvikmyndagrein

Mynd:  / 

Frumleg nálgun á gamalgróna kvikmyndagrein

31.01.2019 - 14:25

Höfundar

Gríski leikstjórinn Yorgos Lanthimos gefur ekkert eftir í óhugnaði og undarlegheitum í búningadramanu The Favourite.

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Í nýjustu kvikmynd gríska leikstjórans Yorgos Lanthimos, The Favourite, sannast hið fornkveðna að köld eru kvennaráð. Kvikmyndin er tilnefnd til hvorki meira né minna en 10 Óskarsverðlauna og hefur fengið frábærar viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda.

The Favourite fjallar um Önnu Bretadrottningu. Hún var sú síðasta í Stuart-ættinni sem sat á veldisstóli og ríkti til dauðadags árið 1714. Anna átti erfiða ævi að mörgu leyti, hún varð 17 sinnum ófrísk að barni eiginmanns síns, Georgs prins, en ekkert barnanna komst á legg. Anna var við slæma heilsu síðustu árin sem hún lifði, þjáðist af þunglyndi, offitu og þvagsýrugigt sem dró hana á endanum til dauða.

The Favourite hefst 1708, eftir að prinsinn er fallinn frá. Bretar eiga í útistöðum við Frakka og Anna er undir hælnum á Söruh Churchill, hertogaynjunni af Marlborough, sem er hennar helsti ráðgjafi og nánasta vinkona. Þegar fátæk náfrænka Söruh, Abigail Hill, kemur til hallarinnar að sækjast eftir vinnu, upphefst einkennilegur ástarþríhyrningur og valdabarátta á milli kvennanna.

Abigail kemst að hirðinni sem óbreytt þjónustustúlka fyrir náð og miskunn frænku sinnar en ekki líður á löngu þar til hún hefur unnið sig upp innan hirðarinnar. Með gáfur sínar og ósvífna sjálfsbjargarviðleitni að vopni tekst henni að komast í innsta hring drottningarinnar og hljóta virðingarstöðu. Þar með hefst grimm samkeppni Söruh og Abigail um hylli hinnar veiklyndu og óöruggu Önnu sem auðvelt reynist að stjórna. Bakgrunnur þessara innbyrðis átaka kvennanna við hirðina er stríðsátök og milliríkjadeilur Frakklands og Bretlands og pólitísk átök Tories og Whigs í innlendri pólitík. Sarah Churchill  stjórnar landinu í raun og veru í gegnum áhrif sín á drottninguna sem vill helst borða sér til óbóta, hlæja að sérkennilegum kappreiðum anda og humra og leika við kanínurnar sínar 17 sem standa fyrir börnin sem hún missti.

Mynd með færslu
 Mynd:
Emma Stone, Olivia Colman og Rachel Weisz í hlutverkum sínum.

Með aðalhutverk  í myndinni fara Olivia Colman sem leikur Anne, Rachel Weisz sem leikur Söruh, hertogaynjuna af Marlborough, og Emma Stone í hlutverki Abigail. Olivia Colman fer á kostum sem hin mislynda og óhamingjusama Anna og hefur sýnt það og sannað á ferlinum að hún er jafnvíg á dramatísk hlutverk og gamanhlutverk en hún sameinar þessa hæfileika sína af stakri snilld sem hin tragikómíska Anna drottning. Það er svo mikið tilhlökkunarefni að fá að sjá Colman spreyta sig í næsta drottningarhlutverki en hún tekur við af Claire Foy sem Elísabet önnur í sjónvarpsþáttunum The Crown. Emma Stone og Rachel Weisz fara líka á kostum í hlutverkum sínum þar sem þær svífast einskis í keppni sinni um hylli drottningarinar. Þetta er heldur ekki fyrsta myndin þar sem Olivia Colman, Rachel Weisz og leikstjórinn Yorgos Lanthimos leggja saman krafta sína því að báðar leikkonurnar léku í The Lobster frá 2015. Það er líka einstaklega viðeigandi að Emma Stone og Rachel Weisz eru báðar tilnefndir til Óskarsverðlauna í sama keppnisflokki, sem besta leikkona í aukahlutverki.

The Favourite er bæði nýstárlegt búningadrama og kolsvört gamanmynd. Þrátt fyrir að myndin fylgi í grófum dráttum eftir sögulegum atburðum og persónum þá hafa leikstjóri og handritshöfundar tekið sér heilmikið skáldaleyfi. Þetta er að mörgu leyti nútímaleg saga í efnistökum, femínísk kvikmynd sem fjallar um valdamiklar konur sem eru flóknir og marglaga karakterar sem berjast innbyrðis og stunda líka skotveiðar og útreiðar. Abigail, sérstaklega, er til marks um konu sem tekst með klækjum og útsjónarsemi að koma sér úr vonlausum aðstæðum og finnur sér farveg til þess að komast af í grimmum heimi stéttskiptingar og nær á endanum að rísa til æðstu metorða innan hirðarinnar. Abigail er ýtt út úr hestvagninum þegar hún kemur til hallarinnar í upphafi myndarinnar, slypp og snauð eftir hræðilegt hjónaband við mann sem vann hana í spilakeppni við föður hennar. Eftir að hafa þurft að sitja undir góni dónakalls sem er samferða henni í vagninum lendir Abigail beint á framhliðinni í drullusvaði, en hún lætur hvorki það né annað mótlæti á sig fá. Klæðaburður, siðir og venjur 18. aldar við hirð bresku krúnunnar koma okkur áhorfendum einnig undarlega fyrir sjónir, við höfum vitaskuld séð svipaða búninga áður í ótalmörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, en í The Favourite er fáránleikinn frekar undirstrikaður sem og hið gróteska í yfirdrifnum lífsstíl aðalsins. Það er líka áhugavert að skoða klæðaburð karlmannanna á þessum tíma, íburðarmiklar hárkollur, litríkan klæðnað og yfirdrifinn andlitsfarða sem er mun ýktari en hjá konunum. Karlmennirnir eru í raun kvenlegri en konurnar, út frá okkar hugmyndum um ýktan kvenleika sem er einna helst haldið á lofti af dragdrottningum samtímans.

Mynd með færslu
 Mynd:
Skrautlegir karlmenn í kvikmyndinni The Favourite.

Í The Favourite eru þessir stílþættir nýttir til hins ýtrasta til að undirstrika fáránleikann í siðum og venjum 18. aldar, þannig að útkoman er á köflum einstaklega fyndin. Einnig er myndatakan frumleg og ögrar þeirri hefðbundnu fagurfræði sem áhorfendur búningadrama eru ef til vill vanari. Þannig er notast breiðlinsu sem bjagar sjónarhornið og skapar örlítið óþægilega tilfinningu hjá áhorfandanum sem svo þjónar sögunni sem er verið að segja. Að einhverju leyti fannst mér þetta vera eins og upptaka úr öryggismyndavél en við erum líka að gægjast inn í einkalíf kóngafólks og það er svo sem ekkert nýtt af nálinni. Myndatakan minnir áhorfandann líka á að þetta er ekki raunsannur gluggi inn í fortíðina eða nákvæm endursköpun á liðnum atburðum heldur tilraun til þess að skoða fortíðina í gegnum linsu samtímans.

Búningadramað er vinsæl kvikmyndagrein og sú endurskoðun sem mannkynssagan er sífellt að fara í gegnum býður upp á endalausar nýjar aðlaganir á atburðum fortíðarinnar. The Favourite er heldur ekki eina búningadramað um þessar mundir sem gerir samskipti valdamikilla kvenna að aðalumfjöllunarefni því að kvikmyndin Mary Queen of Scots tekur á einu frægasta sambandi kvenna allra tíma, þeirrar Elísabetu fyrstu og frænku hennar Mary Stuart, og hefur sú mynd einnig fengið prýðilegar móttökur gagnrýnenda og þykir bara nokkuð femínísk.

Það má segja að þær reglur sem við mannfólkið setjum okkur, sem oft og tíðum eru mjög tilviljanakenndar og fáránlegar, og það hvernig við beitum valdi með kænskubrögðum til þess að ráðskast hvert með annað annað, sé gegnumgangandi stef í kvikmyndum leikstjórans Yorgos Lanthimos. Dystópían er ekki bara í samtímanum eða framtíðinni heldur líka í fortíðinni. Fyrsta mynd Lanthimos sem vakti verulega athygli utan heimalandsins var kvikmyndin Dogtooth frá 2009 sem fjallaði um foreldra sem ala börnin sín upp í einangrun frá umheiminum, setja þeim sérkennilegar reglur og skapa heimsmynd sem tryggir að þau lifa í stöðugum ótta og flýja ekki fangavist sína. The Lobster fjallar um mann sem fer á hótel eftir að eiginkona hans yfirgefur hann þar sem honum eru gefnir 45 dagar til þess að finna sér nýja ást, takist honum það ekki breytist hann í humar. Síðasta mynd Lanthimos á undan The Favourite var sálfræðitryllirinn The Killing of a Sacred Deer sem fjallaði um hjartaskurðlækni sem þarf að takast á við 16 ára ungling í hefndarhug sem leggur fyrir hann hryllilegar þrautir.

The Favourite gefur fyrri myndum Lanthimos ekkert eftir í óhugnaði og undarlegheitum með kómísku ívafi og tekst að koma með frumlega nálgun á gamalgróna kvikmyndagrein, búningadramað, sem er í senn nútímaleg og fáránleg í senn.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Flest hlutverkin eiga raunverulega fyrirmynd

Kvikmyndir

The Favourite og Roma leiða kapphlaupið

Kvikmyndir

The Favourite tilnefnd til 12 Bafta-verðlauna

Sjónvarp

Queen hafði betur gegn Lady Gaga