Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Frú Ragnheiður verður á vaktinni yfir hátíðirnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins keyra um á bílnum Frú Ragnheiði um höfuðborgarsvæðið yfir hátíðirnar og þjónusta skjólstæðinga sína ásamt því að koma til þeirra jólagjöfum og jólamat. Bíllinn er sérinnréttaður til að veita heilbrigðisþjónustu í nærumhverfi skjólstæðinga.

Jólin geta verið mörgum þungbær, segir Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur Frú Ragnheiðar.  Sjálfboðaliðar verkefnisins reyni því að skapa öruggt og gott rými fyrir þá sem leiti til þeirra yfir hátíðirnar og eiga eins góðar stundir saman og hægt er hverju sinni. 

„Þjónustan okkar yfir hátíðirnar er mun meira sálrænn stuðningur og að fara og hitta þá sem þurfa á okkur að halda. Við erum til staðar og það er alltaf hægt að hringja í okkur ef það er eitthvað. Við erum með jólagjafir sem að við erum að gefa okkar skjólstæðiinugm og keyra út og við verðum líka með jólamat og Mackintosh dollu með okkur í kvöld,“ segir Elísabet. 

Hafa skaðaminnkun að leiðarljósi

Sjálfboðaliðar Frú Ragnheiðar starfa eftir hugmyndafræði um skaðaminnkun og bjóða skjólstæðingum sínum á höfuðborgarsvæðinu upp á skaðaminnkandi þjónustu sex daga vikunnar, svo sem heilbrigðis- og nálaskiptiþjónustu.

Heilbrigðisþjónusta á vegum sjálfboðaliðanna er til að mynda aðhlynning sára, sýklalyfjameðferð, umbúðaskipti, saumataka, almenn heilsufarsskoðun og ráðgjöf.

Nálaskiptiþjónustan felur meðal annars í sér að einstaklingar, sem nota vímuefni í æð, geta sótt sér hreinar nálar, sprautur, nálabox, smokka og annað sem þarf til að draga úr líkum á smiti og sýkingu. Að auki fá skjólstæðingar hlý föt, næringu, svefnpoka, tjalddýnur, sálrænan stuðning, ráðgjöf og nú jólagjafir og jólamat yfir hátíðirnar. 

„Skaðaminnkun vísar til stefna, verkefna og verklags sem miðar fyrst og fremst að því að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar löglegra og ólöglegra vímuefna án þess endilega að draga úr vímuefnanotkun. Skaðaminnkun gagnast fólki sem notar vímuefni, fjölskyldum þeirra, nærsamfélagi og samfélaginu í heild,“ segir á Facebook síðu verkefnisins. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Mikið samstarf milli sjálfboðaliða og skjólstæðinga

Skjólstæðingar Frú Ragnheiðar eru helst úr jaðarsettum hópum í samfélaginu, eins og einstaklingar sem nota vímuefni í æð og einstaklingar sem eru húsnæðislausir. Í fyrra leituðu 455 einstaklingar til Frú Ragnheiðar, heimsóknir voru 3.854 talsins og fargaði verkefnið 2.670 lítrum af notuðum sprautubúnaði.

Elísabet segir að framkvæmd og þróun verkefnisins fari fram í miklu samráði og samstarfi á milli sjálfboðaliðanna og skjólstæðinga þeirra, sem veiti ráðgjöf í ýmsum efnum. 

Markmiðið að auka heilsu og lífsgæði fólks

Þá segir hún markmiðið verkefnisins vera margvísleg. Þau felist þó fyrst og fremst í því að aðstoða einstaklinga við að halda lífi og draga úr þeim skaða sem getur hlotist af því að vera heimilislaus eða í erfiðri og flókinni vímuefnanotkun. Þá miðar verkefnið einnig að því að auka heilsu og lífsgæði fólks. Þannig hafi skaðaminnkun sterka skýrskotun til lýðheilsu og mannréttinda. 

Í Frú Ragnheiði starfa um 80 sjálfboðaliðar og tvær starfskonur sem sinna eftirfylgd með málum skjólstæðinga á dagtíma og aðstoða þeim við að koma málum sínum í réttan farveg. Á hverri vakt starfar þá hjúkrunarfræðingur og er læknir á bakvakt. Árið 2018 skiluðu sjálfboðaliðar verkefnisins 4.627 klukkustundum í sjálfboðavinnu.