Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Friðarviðræður út um þúfur eftir árás á Trípólíhöfn

19.02.2020 - 02:21
epaselect epa08225719 Ghassan Salame, Special Representative of the United Nations Secretary-General and Head of the United Nations Support Mission in Libya, informs the media about a new meeting round of the 5+5 Libyan Joint Military Commission, during a press stakeout, at the European headquarters of the United Nations in Geneva, Switzerland, 18 February 2020.  EPA-EFE/SALVATORE DI NOLFI
Ghassan Salame, sérlegur erindreki SÞ í málefnum Líbíu, var ánægður þegar hann tilkynnti að önnur lota viðræðna væri í þann mund að hefjast í Genf. Sú ánægja reyndist skammvinn, því viðræðurnar voru varla byrjaðar þegar hersveitir annars deiluaðilans gerðu flugskeytaárás á höfnina í Trípólí. Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE
Alþjóðlega viðurkennd ríkisstjórn Líbíu hyggst hætta þátttöku í friðarviðræðum stríðandi fylkinga, sem hófust á ný í Genf í gærmorgun. Stjórnin tilkynnti þetta síðdegis á þriðjudag, skömmu eftir að fregnir bárust af árás viðsemjenda þeirra á höfnina í Trípólíborg, þar sem ríkisstjórnin er með höfuðstöðvar sínar. Sú árás var gerð einungis örfáum klukkustundum eftir að fulltrúar hinna stríðandi fylkinga settust aftur að óbeinum samningaviðræðum í Genf, með milligöngu erindreka Sameinuðu þjóðanna

Fyrstu lotu óbeinu viðræðnanna var slitið án árangurs fyrr í þessum mánuði og sú næsta var sem sagt  ekki fyrr byrjuð en sveitir stríðsherrans Khalifa Haftars gerðu flugskeytaárás á Trípólíhöfn. Talsmaður Trípólístjórnarinnar, sem einnig er kennd við Þjóðarsátt, sagði að árásinni yrði svarað af fyllstu hörku fyrr en varir. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV