Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Friðaráætlun þýðir yfirtöku Ísraels á landi Palestínu“

US President Donald J. Trump (R) shakes hands with Prime Minister of Israel Benjamin Netanyahu while unveiling his Middle East peace plan in the East Room of the White House, in Washington, DC, USA, 28 January 2020. US President Donald J. Trump's Middle East peace plan is expected to be rejected by Palestinian leaders, having withdrawn from engagement with the White House after Trump recognized Jerusalem as the capital of Israel. The proposal was announced while Netanyahu and his political rival, Benny Gantz, both visit Washington, DC.
 Mynd: MICHAEL REYNOLDS - EPA
Friðaráætlun um Palestínu sem Donald Trump Bandaríkjaforseti og Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels kynnt í lok síðasta mánaðar skerðir tengsl Palestínu við land sitt og er ávísun á frekari yfirtöku Ísraelsmanna á landi Palestínu. Þetta er mat Magnúsar Þorkels Bernharðssonar prófessors í sögu Miðausturlanda við Williams-háskólann í Massachusetts. Alþjóðasamfélagið geti lítið gert til að breyta því.

Þann 26. janúar tilkynnti Benjamin Netanyahu að hann væri á leið til Bandaríkjanna til að leggja fram tillögu að friðaráætlun um Palestínu. Hann notaði þar hugtak, sem hann svo endurtók þegar hann og Donald Trump Bandaríkjaforseti hittust daginn eftir.

„Samningur aldarinnar er tækifæri aldarinnar. Því eigum við ekki að sleppa,“ sagði Netanyahu á fundi með Trump. 

Þetta nafn fór að festast við áætlunina áður en hún var svo kynnt degi síðar, eða 28. janúar. Fram kom að bæði Netanyahu og Benny Gantz leiðtogi stjórnarandstöðunnar hefðu samþykkt hana. Það var orðið þannig að þeir tveir ætluðu að nota hana sem grunn fyrir samningaviðræður við Palestínumenn.

Þessi aðdragandi er óvenjulegur.  Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor í Miðausturlandafræðum við háskólann í Massachusets segir það þó ekki koma á óvart að Trump hafi sett þetta á oddinn - það hafi hann gert meira og minna frá því hann var kosinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Magnús Þorkell Bernharðsson.

„Það sem gerir þetta öðruvísi er að frá því 1947 eftir að Sameinuðu þjóðirnar komu að málefnum Ísraels og Palestínu þá var viðhorfið alltaf það að alþjóðasamfélagið, Sameinuðu þjóðirnar, Ísraelsmenn og Palestínumenn myndu setjast sameiginlega við borðið og komast að sameiginlegri niðurstöðu til að útkljá þessi mál. Þannig að þetta er algjörlega ný aðferðarfræði. Það má velta því fyrir sér hvort þetta sé jákvætt, að það sé verið að hringla í þessu og stilla mönnum upp á nýtt á taflborðinu. En hins vegar má líka spyrja sig: Hvers konar friðarsamningur er þetta ef þeir sem eiga aðild að framtíð þessa svæðis eru ekki þátttakendur í þessu ferli?“

Magnús segir tímasetninguna líka einkennilega. Báðir hafa verið ákærðir í heimalandi sínu þó að Trump hafi reyndar verið sýknaður á miðvikudag. „Þetta er einkennilegur samningur og er ekki til þess endilega að stofna til friðar heldur leggja ákveðinn grundvöll og réttlætingu fyrir því að Ísraelar komi til með að taka enn frekara land til sín. Þá er þetta líka réttlæting á þeim aðgerðum sem þeir hafa verið með síðustu 50 árin, þ.e. þetta hernám og landrán sem hefur átt sér stað á Vesturbakkanum fyrir botni Miðjarðarhafs.“

Ísraelsmenn ráða Jerúsalem og Jórdandalnum

En að tillögunum sjálfum. Trump segir þær fela í sér að þjóðirnar fái sambærilegt svæði til umráða á Vesturbakkanum og Gaza. Palestínumenn fái meira en tvöfalt meira land til umráða en þeir hafa núna. Þetta sé í fyrsta sinn sem Ísraelsmenn hafi samþykkt tillögu að landamærum fyrir sjálfstætt ríki Palestínu. Á hinn bóginn verður Jerúsalem höfuðborg Ísraels og landtökubyggðir Ísraelsmanna á vesturbakkanum verða viðurkenndar sem ísraelskt svæði. Að auki fá Ísraelsmenn yfirráð yfir Jórdandalnum, sem Palestínumenn telja órjúfanlegan hluta af sínu ríki en Ísraelsmenn telja hann hernaðarlega mikilvægan fyrir sig. Bandarísk stjórnvöld heita svo aðstoð við að koma flóttamönnum fyrir á nýjum stað, ef þeir vilja flytja sig.

Kort af Palestínuríki frá 1917 fram að áætlun Trumps og Netanyahu um frið í Palestínu.
 Mynd: Al Jazeera
Kort frá Al Jazeera sem sýnir Palestínuríki frá 1917. Lengst til hægri er svæðið samkvæmt friðaráætluninni.

Trump hefur kynnt þetta sem mögulegan grunn að samningum milli Palestínumanna og Ísraelsmanna. „Það er kominn tími til að múslimasamfélagið leiðrétti mistökin frá 1948, þegar þeir kusu að gera árás í stað þess að viðurkenna nýtt Ísraelsríki,“ segir Donald Trump.

Áður en við fáum Magnús Þorkel til að rýna betur í þennan samning er kannski rétt að skoða í hvað Trump er að vísa og stikla á stóru um sögu þessa svæðis frá þeim tíma.

SÞ og Bretum mistókst að leysa deilur

Árið 1947 gáfu Sameinuðu þjóðirnar út áætlun um skiptingu svæðisins sem nú er Ísrael og Palestína milli gyðinga og araba. Bretar höfðu þá yfirráð yfir svæðinu og þar hafði ríkt töluverður ófriður áratugina á undan. Áætlunin gerði ráð fyrir alþjóðlegri stjórn yfir Jerúsalem sem ætti að vera við völd í 10 ár. Síðan ættu íbúar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hver ætti að stjórna borginni.

Leiðtogar gyðinga samþykktu áætlunina en arabar ekki. Bretar gátu ekki leyst úr þessu ágreiningi og því yfirgáfu þeir svæðið árið eftir, 1948. Gyðingar lýstu þá yfir stofnun Ísraelsríkis.

David Ben-Gurion, fyrsti forsætisráðherra Ísraels, lýsir yfir sjálfstæði Ísraelsríkis 1948.
 Mynd: Jewish chronicle
David Ben-Gurion lýsir yfir sjálfstæðis Ísraelsríkis. Hann var fyrsti forsætisráðherra ríkisins.

Stríð braust út milli nýja ríkisins og Arabaríkjanna. Ísraelsmenn báru sigur úr bítum árið eftir og stjórnuðu þá stórum hluta alls svæðisins, að því frátöldu að Jórdanar réðu Vesturbakkanum, þar á meðal austurhluta Jerúsalem, og Egyptar Gazaströndinni.

Átökin á milli þeirra héldu samt áfram. Ísraelsmenn hertóku Vesturbakkann og Gaza, ásamt fleiri svæðum, í sex daga stríðinu 1967, þar á meðal austurhluta Jerúsalem. Síðan þá hafa Ísraelsmenn komið upp landtökubyggðum á þessum svæðum, þar sem búa nú um 600 þúsund gyðingar - byggðir sem Palestínumenn telja ólöglegar. Þeir hafa lengi sóst eftir því að fá að stofna sjálfstætt ríki á Vesturbakkanum sem innihéldi Vesturbakka Jórdan og Gazaströndina, þau svæði sem Arabar réðu yfir frá 1947-67.

Óslóarsamkomulag

Í þessu samhengi er líka rétt að nefna að árið 1993 áttu sér stað leynilegar viðræður í Ósló, sem enduðu með því að Yitzhak Rabin þáverandi forsætisráðherra Ísraels og Yasser Arafat þáverandi leiðtogi PLO, frelsissamtaka Palestínu, skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að semja um framtíðina í stað þess að heyja stríð um hana.

Þessar umræður leiddu af sér sögulegt samkomulag árið 1994. Bill Clinton þáverandi Bandaríkjaforseti kallaði þetta sögulegan viðburð í einum af mestu átökum heimsbyggðarinnar. Samkomulagið fól í sér að Palestínumenn fengu til umráða nokkur svæði á Vesturbakkann og Gaza. Palestínumenn viðurkenndu Ísraelsríki og Ísraelsmenn samþykktu PLO sem tímabunda ríkisstjór Palestínumanna - sú fyrsta sem þeir fengu. Ísraelsmenn og Palestínumenn áttu að fá fimm ár til að koma með samning um tveggja ríkja lausn á svæðinu - með stofnun Palestínuríkis og að Ísraelsmenn drægju herlið sitt frá Vesturbakkanum.

Þetta samkomulag varð til þess að Rabin, Arafat og Shimon Perez þáverandi utanríkisráðherra Ísraels friðarverðlaun Nóbels þetta ár. Perez sagði við þetta tækifæri að Arafat væri að snúa frá leið átaka til leiðar viðræðna milli okkar og Palestínumanna - og óskaði þeim alls hins besta í framtíðinni.

A file picture dated 10 December 1994 shows Palestinian leader Yasser Arafat (L-R), Israeli Foreign Minister Shimon Peres, and Israeli Prime Minister Yitzhak Rabin as they pose with their Nobel Peace Prize awarded in Oslo, Norway.
 Mynd: ERIK JOHANSEN - EPA
Yasser Arafat, Shimon Perez og Yitzhak Rabin taka við friðarverðlaunum Nóbels 1994.

Samkomulagið gekk ekki eftir nema að litlu leyti. Óánægja fór fljótlega að láta á sér kræla í Palestínu með samkomulagið, sem töldu að með því væri verið að gefa of mikið af landi eftir til Ísraelsmanna. Hamassamtökin gerðu meðal annars sjálfsmorðssprengjuárásir þar sem gyðingar voru skotmarkið. Ísraelsmenn kenndu margir hverjir Yitzhak Rabin um að sá jarðveginum fyrir þessar árásir og var hann á endanum myrtur í október 1995. Aðeins lítill hluti herliðs Ísraelsmanna var kallaður til baka og Ísraelsmenn hertóku svo Vesturbakkann árið 2002.

Átök hafa brotist úr reglulega síðan þannig að Óslóarsamkomulagið varð ekki sá grundvöllur að friðarsamkomulagi sem var vonast eftir.

Palestínumenn ósáttir við friðaráætlunina

En aftur að þessari friðaráætlun Trumps. Er hún líklegri til að skila betri árangri? Ekki miðað við álit sérfræðinga. Þeir segja að Ísraelsmenn séu að fá nánast allt sem þeir vilja, og Palestínumenn lítið. Sjálfsstjórn Palestínumanna verður í raun lítil þar sem ríkið verði umlukið Ísrael.

Þessi áætlun hefur ekki mælst sérstaklega vel fyrir utan Ísraels. Fjöldi manna þusti út á götur Gaza til að mótmælt þessari tillögu. Mahmoud Abbas forseti Palestínu brást einnig ókvæða við. „Ég tilkynni hér með að það verða engin tengsl við Ísraelsmenn eða Bandaríkjamenn, þar á meðal í öryggis- og varnarmálum, í ljósi þess að þið hafnið þeim samningum sem voru undirritaðir og voru í samræmi við alþjóðalög. Og þið Ísraelsmenn verðið að bera ábyrgð sem sú þjóð sem hefur tekið yfir land.“ Hann sagði jafnframt að Palestína væri ekki til sölu.

Arababandalagið hefur líka hafnað áætluninni. Ófriðurinn vegna þessarar áætlunar er í raun þegar hafinn - komið hefur til átaka víða á Vesturbakkanum og Hamas-samtökin stóðu fyrir bílsprengjuárás í Jerúsalem, sem þeir sögðu að væri beinlínis hluti af því að sporna gegn þessari friðaráætlun. Það er því ekki alveg í sjónmáli að þessi áætlun stuðli að friði.

epa08197632 Israeli policemen and medics inspect the body of a Palestinian man who was shot dead after allegedly firing at police officers, next to lions gate leading to Al-Aqsa compound in Jerusalem's Old City, 06 February 2020. According to an Israeli police spokesperson, a border police officer was slightly injured in the shooting, while the assailant was shot dead by other officers.  EPA-EFE/ATEF SAFADI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Palestínumaður var skotinn til bana í Jerúsalem á miðvikudag. Hann var sagður hafa skotið fyrst á lögreglumenn.

Magnús Þorkell tekur undir að þessi áætlun sé alls óviðunandi fyrir Palestínumenn. Þó að hún feli í sér svipað land og þeir voru með áður segi það ekki alla söguna.

„Hvað myndir þú segja ef þú ættir stórt landsvæði á Arnarnesinu og ég segði: Heyrðu, eigum við ekki að skipta þannig að ég fæ allt Arnarnesið og þú færð í staðinn Hveravelli, einhvers staðar lengst í Öræfum?

Það sem verið er að ræða um er að kannski er prósentuhlutfall af landi sem Palestínumenn fá álíka og þeir hafa verið með. En hvar er þetta land? Hvers konar landgæði eru á þessum stað? Og hversu líklegt er að Palestínumenn geti búið á því og myndað framtíðar samfélag? Þetta snýst líka um hvaða land þeir hafa átt og hvaða tengsl þeir hafa við það. Það sem Ísraelsmenn eru að leggja til í þessum samningi er að þeir koma til með að eignast  Jerúsalem, sem verði þá höfuðborg Ísraels og Palestínumenn geta ekkert neitt tilkall til hennar.“

Magnús bendir einnig á að stór hluti Vesturbakkans, sem hefur verið framtíðarvísir að sjálfstæðu palestínsku ríki, verði í eigu Ísraelsmanna nái þessar tillögur fram að ganga. “Landgæði þar eru mikil, það er góður aðgangur að vatni og landbúnaður er mikið stundaður. Þar er líka land sem tengist Palestínu sögulega. Í staðinn fá Palestínumenn einhverja afskekta staði í eyðimörkinni á Sínaí-skaganum sem þeir eru ekki neinum menningarlegum, pólitískum eða efnahagslegum tengslum við.

Í þriðja lagi er líka verið að segja að þeir Palestínumenn sem eru í útlegð og eru flóttamenn eigi ekki rétt á því að snúa aftur heim meðan gyðingar og Ísraelsmenn annars staðar í heiminum eiga fullan rétt á að snúa aftur heim til Ísraels. Þannig að Palestínumenn mega ekki búa í því landi sem þeir telja að séu sín heimkynni.“

Gerviríki

Til að bæta gráu ofan á svart getur þetta sjálfstæða ríki Palestínu ekki haft eigin stofnanir eins og til dæmis her. Þá er aðgengi að Miðjarðarhafinu takmarkað þannig að þeir hafa hvorki aðgang að sjávar- né gasauðlindum þar.

„Þetta er ekki ríki, þetta er gerviríki. Þetta er í raun og veru ekki grundvöllur að neinu sem Palestínumenn hafa ímyndað sér að yrði framtíðarland Palestínumanna. Þarna er verið að búa til algjörlega nýjan veruleika fyrir Palestínumenn sem kemur til með að skerða mjög menningarleg, efnahagsleg og stjórnmálaleg tengsl þeirra við sitt eigið land.“

Mynd með færslu
Landtökufólk í Elazar-landtökubyggðinni reynir að hindra að Ísraelsher rými húsin og jafni við jörðu í júní í sumar, í einu örfárra tilfella sem Ísraelsk yfirvöld hafa viðurkennt ólögmæti einhverra hinna fjölmörku, ólöglegu landtökubyggða á Vesturbakkanum Mynd:
Landtökubyggð á Vesturbakkanum.

Magnús Þorkell segir Palestínumenn hins vegar í erfiðri stöðu til að streitast á móti þessum samningi. Þeir hafi lítinn stuðning frá öðrum Arabaríkjum, ef frá eru taldir Íranir og Tyrkir.

„Það er mjög athyglisvert að eftir að Netanhyahu var í Hvíta húsinu fór hann strax beint til Pútín í Moskvu. Ísraelsmönnum er mjög umhugað um að Rússar séu fylgjandi samkomulaginu. Þannig að ég er ekki alveg viss hvaða leiðir og valdastoðir eru í alþjóðasamfélaginu sem geta komið í veg fyrir að Ísraelsmenn gangi fram með þeim hætti sem samningurinn gerir ráð fyrir. Það virðist því miður vera staðreyndin að það virðist fokið í flesti skjól hjá Palestínumönnum hvað þetta varðar.“

Meira að segja Sameinuðu þjóðirnar geta lítið beitt sér þó að þær hafi gefið út yfirlýsingu um að þessi áætlun valdi áhyggjum og margir Pakistanar séu hreinlega í sjokki yfir þessu. Magnús Þorkell segir Ísraelsmenn nánast aldrei fylgja áætlunum Sameinuðu þjóðanna og Bandaríkjamenn beiti óspart neitunarvaldi í öryggisráðinu. Þær séu því aðeins í aukahlutverki. Staðan sé einfaldlega þannig núna að á meðan ekkert gerist í þessum málum, aukist áhrif Ísraelsmanna. 

„Þeir græða á kyrrstöðu, þeir græða á núverandi ástandi. Þeir eru að ná til sín fleiri landsvæðum og Ísraelsmönnum fjölgar á landtökubyggðunum á Vesturbakkanum. Þar af leiðandi er þetta uppskrift af því að Ísraelsmenn eru smám saman að taka yfir þetta land.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV