Frí gisting gegn snjómokstri

19.02.2020 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurjón Benediktsson
„Þegar samkeppnin er hörð, þá verður maður bara að gera eitthvað,“ segir Sigurjón Benediktsson, eigandi og stjórnandi Húsavík Cottages sem býður fría gistingu gegn því að fólk moki sig að bústöðum gistiþjónustunnar.

Vefmiðillinn Húsavík Observer greindi frá því á miðvikudag að þetta einstaka tilboð stæði ferðamönnum til boða við Húsavík. Sigurjón segir í samtali við fréttastofu að hann hafi fengið nokkrar fyrirspurnir, en enginn hafi þegið tilboðið ennþá. Tilboðið á við um þrjá bústaði. Talsverður mokstur er að þeim, eða að meðaltali um hundrað metrar þaðan sem hægt er að leggja bíl næst þeim að sögn Sigurjóns. „Þetta er dálítið mikill snjór. Það er fullt af fólki þarna út sem hefur gott af því að moka aðeins snjó,“ segir Sigurjón og bætir því við að mesti snjórinn sé rétt í kringum húsin.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurjón Benediktsson

Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands er búist við snjókomu fyrir norðan næstu daga, og því bætist líklega aðeins við moksturinn. Sigurjón segir tilboðið standa til boða á meðan ófært er að bústöðunum. Ein nótt er í boði fyrir moksturinn, en tvær ef vel er mokað segir hann. 

Sigurjón segir mikla samkeppni um ferðamennina í og við Húsavík. Hann segir hótelin bjóða upp á frían morgunmat, og því hafi hann brugðið á það ráð að koma með eitthvað öðruvísi. „Ég bíð bara eftir því að stóru hótelin bjóði ókeypis gistingu,“ segir Sigurjón að lokum.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurjón Benediktsson
Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi