Fréttir um lundadráp Breta reyndust púðurskot

30.07.2019 - 18:35
Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrustofa Suðurlands
„Þetta er algjört bull frá upphafi til enda og það er ekki flugufótur fyrir þessu,“ segir Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, skotveiðifélags Íslands, um fréttir enskra fjölmiðla um að breskir veiðimenn væru reiðubúnir til að greiða hálfa milljón íslenskra króna til að veiða lunda á Íslandi í tugavís. Fréttirnar vöktu mikla athygli og blandaði Carrie Symonds, kærasta Boris Johnson, sér meðal annars í málið.

Áki hefur skoðað málið eftir að fréttirnar rötuðu til Íslands og komst meðal annars að því að myndirnar sem bresku miðlarnir notuðu voru alls ekki af Bretum heldur sýndu annars vegar veiðimenn frá Möltu og hins vegar frá Bandaríkjunum. Það sem er verra er að myndirnar eru býsna gamlar, önnur frá 2008 en hin var tekin 2010. Þær eru teknar af vefsíðunni The Icelandic Hunting Club sem hefur ekki verið til mjög lengi, samkvæmt eiganda hennar. 

Áki þekkir vel til þessara mála, var um tíma sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun og sá um að afgreiða veiðileyfi til erlendra ferðamanna sem vildu koma hingað á skytterí. Áki segist varla muna eftir Breta sem vildi koma hingað til að skjóta lunda. Eini Bretinn sem hann muni eftir og hafi komið til Íslands til að veiða lunda sé matreiðslumaðurinn Gordon Ramsey. Ramsey fékk heldur betur skammir í hattinn þegar myndskeið var sýnt af lundaveiðinni í þætti hans og var meðal annars kallaður „lundamorðingi.“

Áki grennslaðist fyrir um málið hjá Umhverfisstofnun í dag og fékk þau svör að sex Bretar hefðu fengið veiðileyfi á síðasta ári til að fara á hreindýra- og gæsaveiðar og í ár hafa þrír Bretar fengið veiðileyfi, allir til að fara á hreindýraveiðar. Fréttastofa hefur séð tölvupóst frá Umhverfisstofnun þar sem þetta er staðfest. „Menn þurfa að sækja um slíkt leyfi og verða þá að framvísa sambærilegum réttindum og vera með íslenskan ábyrgðarmann. Síðan þarf að skila inn veiðiskýrslum þar sem þarf að koma skýrt fram hvað menn hafa verið að veiða.“

Áki segir að það séu aðallega Bandaríkjamenn, Möltumenn og Ítalir sem komi hingað á lundaveiðar. Heildarveiðin sé um 25 þúsund fuglar af sex milljóna stofni. „Þetta er eins mikill stormur í vatnsglasi og hugsast getur. Það er mikill áróður gegn svokallaðri „trophy-veiði“ og menn eru að reyna að slá sig til riddara.“  Áki telur að þessi hörðu viðbrögð megi eflaust rekja til þess að Bretar hafa samúð með lundanum þar sem hann er að hverfa hjá þeim. „Það eru hamfarir að gerast í heiminum vegna loftslagsbreytinga en mönnum finnst auðvelt að benda á veiðimenn og gera þá að sökudólgum.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi