Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Fréttamyndir eru í eðli sínu ekki fallegar“

28.12.2018 - 10:47
Mynd:  / 
„Fréttamyndir af mörgum atburðum eru í eðli sínu ekki fallegar. En það er bara spurning; eiga þær rétt á sér, hafa þær fréttagildi? Og það er fjölmiðlanna, ritstjóranna þar, að taka ákvarðanir um það og hvernig þær eru birtar og í hvaða samhengi. En myndir eru teknar alls staðar, “ sagði Adolf Ingi Erlingsson í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann sendi fjölmiðlum myndir frá slysstað í gær og hefur myndbirting fjölmiðla verið gagnrýnd.

Adolf Ingi var meðal þeirra fyrstu sem komu að slysstað banaslyssins við Núpsvötn í gær. Tvær konur og ungt barn létu lífið þegar Land Cruiser jeppi fór fram af brúnni yfir Núpsvötn. Í bílnum voru tveir bræður og fjölskyldur þeirra, alls sjö manns. Bræðurnir og tvö börn á aldrinum sjö til níu ára voru flutt með þyrlu á sjúkrahús. Ekki hafa fengist upplýsingar um líðan þeirra. 

Myndbirtingin var gagnrýnd á samfélagsmiðlum í gær, meðal annars af sjúkraflutningamanni sem kom á vettvang. Þeirri færslu hefur verið deilt tæplega 750 sinnum þegar þetta er skrifað. 

Adolf Ingi segir að þetta sé ekki fyrsta slysið sem hann komi að og taki myndir sem hann sendi á fréttastofur RÚV eða Stöðvar 2, en hann hafi unnið á báðum stöðvunum. „Ég vann í meira en tvo áratugi inni á fréttastofu og þetta er einhvern veginn inni í DNA-inu hjá manni. Það er síðan fjölmiðla að ákveða hvað þeir nota af efni sem þeir fá og hvernig þeir gera það. Þessar myndir til dæmis, þær sýna afstöðuna, þær sýna hæðina sem bíllinn dettur fram af.“

Adolf segir að þegar hann tók myndirnar hafi hann verið á leið af vettvangi, enda fagmenn komnir á staðinn og ekki meira fyrir hann að gera. „Ég var búinn að gera það sem ég gat til þess að hjálpa fólki. Á meðan ég var að labba burt þá tók ég upp símann og smellti af þarna fjórum myndum og hugsa með mér að ég sendi þær á Ríkisútvarpið og Stöð 2 og þau ákveða hvað þau vilja gera við þetta, hvort þau vilja nota þetta eða hvað.“ 

Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.