Fréttablaðið verður níundi eigandi DV á öldinni

26.03.2020 - 10:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samkeppniseftirlitið samþykkti í gær samruna Torgs, sem gefur úr Fréttablaðið og starfrækir Hringbraut, og Frjálsrar fjölmiðlunar, sem á DV. Samkeppniseftirlitið taldi að samruninn myndi ekki raska samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Að auki mat eftirlitið stöðuna svo, með hliðsjón af umsögn Fjölmiðlanefndar að ekki væri tilefni til að grípa til íhlutunar vegna áhrifa samrunans á fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlun.

Margir eigendur

DV hefur ítrekað skipt um eigendur það sem af er þessari öld. Það var upphaflega í eigu Frjálsrar fjölmiðlunar sem lenti í miklum fjárhagserfiðleikum og varð gjaldþrota í upphafi aldarinnar. Áður en til þess kom keypti hlutafélag Óla Björns Kárasonar og fleiri fjárfesta blaðið árið 2001, og gaf út til ársins 2003 þegar útgáfan varð gjaldþrota. Þá keypti Frétt, útgáfufélag Fréttablaðsins, útgáfuréttinn og gaf það út til ársloka. Í ársbyrjun 2007 tók nýtt útgáfufélag við rektstrinum, að mestu í eigu sömu manna og fyrra útgáfufélags. Skömmu síðar rann útgáfan inn í tímaritaútgáfuna Birtíng sem átti blaðið til ársins 2010, þegar ritstjórar blaðsins, aðrir starfsmenn og fjárfestar keyptu útgáfuréttinn og gáfu DV út í sjálfstæðu útgáfufélagi. Eftir átök í fjárfestahópnum var útgáfan seld Pressunni árið 2014. Þegar Pressan var við það að fara í þrot keypti nýtt félag með nafnið Frjáls fjölmiðlun alla fjölmiðla fyrirtækisins, þar á meðal DV. Torg keypti svo DV í lok síðasta árs og varð það með níundi eigandi DV á öldinni. 

Þriðji og fimmti mest lesnu vefmiðlarnir undir sama hatt

Prentútgáfa DV kemur út á föstudögum og er með um sjö prósenta lestur samkvæmt nýjustu könnun Gallup. Vefurinn DV.is er hins vegar þriðji mest lesni vefur landsins með 147 þúsund lesendur í síðustu viku. Vefur Fréttablaðsins er fimmti mest lesni vefur landsins með 84 þúsund lesendur í síðustu viku og Fréttablaðið er mest lesna blað landsins með 37 prósenta lestur.

Fyrr í haust sameinaðist Fréttablaðið Hringbraut. Helgi Magnússon fjárfestir átti báða fjölmiðlana. Samkeppniseftirlitið samþykkti þann samruna þar sem hann skekkti ekki samkeppnisstöðu. Einnig kom fram í greinargerð Samkeppniseftirlitsins að fjárhagsstaða Hringbrautar væri mjög bágborin.