Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Fréttablaðið fær tækifæri til að sjá að sér“

05.02.2016 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: Hæpið - RÚV
Héraðssaksóknari hefur fellt niður mál tveggja manna sem kærðir voru til lögreglu fyrir að nauðga konu í íbúð við Miklubraut um miðjan október á síðasta ári. Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, verjandi mannanna, segir að skaðabótamáli gegn Fréttablaðinu og 365 miðlum verði haldið til streitu sjái fjölmiðillinn ekki að sér. Hann segir þetta mál mikilvæga áminningu til fjölmiðla og almennings um að fara sér hægt þegar kemur að sakamálum og forðast að setjast of snemma í dómarasætið.

Mál mannanna vakti hörð viðbrögð þegar Fréttablaðið greindi frá því á forsíðu sinni að íbúð í Hlíðunum hefði verið útbúin til nauðgana.  Sama dag og fréttin birtist var lögreglan gagnrýnd á samfélagsmiðlum fyrir að krefjast ekki gæsluvarðhalds yfir þeim undir myllumerkinu #ekkiminiralmannahagsmunir.

Þegar líða tók á morguninn voru birtar myndir af mönnunum á samfélagsmiðlum og þeir nafngreindir og um kvöldið safnaðist hópur fólks saman fyrir utan lögreglustöðina við Hverfisgötu til að mótmæla aðgerðarleysi lögreglu í kynferðisbrotamálum.

Vilhjálmur Hans segir í samtali við fréttastofu að 365 miðlar og Fréttablaðið hafi gengið of langt í þessu máli og beri mikla ábyrgð. Hann segir að fjölmiðlinum verði gefinn kostur til að sjá að sér og biðjast afsökunar, en verði hinsvegar ekki orðið við þeirri kröfu og samið við skjólstæðinga hans verði skaðabótakröfu gegn miðlinum haldið til streitu.

Fram kom í fréttum RÚV að Vilhjálmur færi fram á 20 milljónir fyrir hönd mannanna - tíu milljónir fyrir hvorn.  Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri Fréttablaðsins, hefur sagt að blaðið standi við frétt sína.

Vilhjálmur upplýsir enn fremur að einhverjum af þeim sem gengu lengst í því að nafngreina mennina og birta myndir af þeim á netinu verði stefnt fyrir dómstóla. Öðrum verði hugsanlega gefinn kostur á því að biðjast afsökunar og ljúka málinu þannig. „Það er einfaldlega þannig að sumir bera einfaldlega meiri ábyrgð á þessari dreifingu en aðrir,“ segir Vilhjálmur og bendir á að meira en 2.000 manns hafi dreift nöfnum og myndum af mönnunum.

Hann bætir við að þetta mál ætti að vera þörf áminning fyrir almenning en ekki síður fjölmiðla. „Það er eitt að kæra en annað þegar búið er að ákæra og niðurstaða liggur fyrir í dómsmáli - fjölmiðlar verða að fara sér hægt í að sakfella menn á síðum blaðanna og fólk ætti ekki að setjast of snemma í dómarasætið.“ 

Rétt er að taka fram að nauðgunarkæra gegn öðrum manninum er enn til meðferðar hjá héraðssaksóknara.  Hún á að hafa átt sér stað í september í sömu íbúð en var kærð til lögreglu um svipað leyti og hitt málið sem nú hefur verið fellt niður.

Hægt er að kæra ákvörðun héraðssaksóknara til ríkissaksóknara - kærufrestur er einn mánuður eftir því sem fréttastofa kemst næst. Ríkissaksóknari hefur síðan þrjá mánuði til að fara yfir málið og taka ákvörðun.