Fresta framkvæmdum í landi Seljaness

15.08.2019 - 07:26
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Vesturverk hefur slegið framkvæmdum í landi Seljaness á Ströndum á frest til þess að komast hjá illindum og til þess að fara ekki með offorsi gegn landeigendum, segir upplýsingafulltrúi Vesturverks. Nú verði farið í veg- og brúarvinnu innst í Ófeigsfirði, norðan Seljaness.

Hluti landeigenda efast um lögmæti framsals Vegagerðarinnar á veghaldi Ófeigsfjarðarvegar til Vesturverks. Þeir telja aðgerðir Vegagerðarinnar ólöglegar og hafa greint frá því að lögregla verði kölluð til verði vegur lagður um land þeirra. Landeigendur segja eignarétt á þessu svæði ekki tilheyra Vegagerðinni heldur langeigendum. Vegagerðin telur sig þó vera í fullum rétti og segir Ófeigsfjarðarveg vera landsveg á þjóðvegaskrá. 

Í fréttatilkynningu frá Vesturverki segir að veghald Ófeigsfjarðarvegar hafi gengið samkvæmt áætlun, utan þriggja vikna tafar í júlí vegna fyrirmæla frá Minjastofnun. Nú sé komið að vegbótum á þeim hluta Ófeigsfjarðarvegar sem liggur um jörðina Seljanes. Það standi þó til að bíða með þær viðgerðir á meðan unnið er að öðru. Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks, segir að vinna við veginn um Seljanes haldi áfram geri hvorki Vegagerðin né hreppurinn athugasemdir í millitíðinni. Hún segir að komi engar athugasemdir upp, telji Vesturverk sig í fullum rétti til að klára verkefnið. 

Birna segir viðhald vegarins um Seljanes að öllu leyti fara fram innan veghelgunarsvæðis Vegagerðarinnar. Einu breytingarnar á veglínunni verði lagfæringar á tveimur kröppum beygjum. Það sé nauðsynlegt til að koma stærri ökutækjum á milli. „Öryggi vegfarenda eykst og sneitt verður hjá fornminjum sem skráðar eru á svæðinu.“ Birna segir slóðann sem liggur fyrir Seljanes verða áfram slóða. Það sé einungis verið að lagfæra hann lítillega. 

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi