Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frelsissvipt í sóttkví í víetnömsku herfangelsi

10.03.2020 - 17:18
Mynd: Aðstæðurnar eru mjög bágbor / Þórey Valný Ingadóttir
„Við fengum klósettpappír í dag frá ferðaskrifstofunni, við mjög mikil gleðilæti. Við getum nánast farið að selja hann á svörtum markaði,“ segir Þóra Valný Yngvadóttir sem ásamt unnusta sínum og vinapari er stödd í heldur ókræsilegri sóttkví í Víetnam vegna COVID-19 veirunnar. „Við erum hérna á herstöð, í sjúkrahúsi eða fangelsi, alla vega eru rimlar fyrir öllum gluggum.“

„Svæðið er múrað inn með múrveggjum og gaddavírsgirðingum sem eykur á innilokunarkenndina,“ sagði Þóra þegar Síðdegisútvarpið sló á þráðinn til hennar. „Við fáum aðeins að fara út fyrir til að teygja úr okkur á stéttinni fyrir framan. Svo er öll aðstaða mjög frumstæð.“ Þóra hafði hugsað sér að fara í draumfríið ásamt unnustanum til Víetnam en kórónaveiran setti svo sannarlega strik í þann reikning eins og svo marga aðra undanfarið og nú er svo komið að hjónakornin verðandi dúsa í hálfgerðu fangelsi. „Við erum að gifta okkur í sumar og höfðum hugsað þetta sem forskot að brúðkaupsferðinni. Í gær vorum við búin að vera tíu daga í ævintýraferð um Víetnam, og voru á leiðinni til eyju með hvítri strönd.“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðstæðurnar eru mjög bágbor - Þórey Valný Ingadóttir
Þórey Valný Yngvadóttir. Draumafríið varð að martröð.

Þremur og hálfum tíma áður en þau áttu að fljúga var hins vegar hringt í fararstjórann sem tilkynnti þeim að þau þyrftu að fara í heilsutékk. „Það var einhver vandræðagangur hvert átti að fara með okkur, en við lentum á endanum á þessari herstöð. Þegar við sáum vegginn og gaddavírsgirðinguna grínuðumst við með að héðan losnuðum við aldrei. Þá var enn þá verið að græja þetta til, við vorum gestir númer eitt til fjögur. Núna eru svona 20-30.“ Fararstjórinn sagði þeim fyrst að komið hefði upp smit á öðru skipi á Hanoi-flóa, en eftir að þau eru komin í fangelsið kemur í ljós að tveir smitaðir Bretar höfðu verið á sama skipi og þau.

Þau fá þær upplýsingar að sóttkvíin vari í tvær vikur en aðstæðurnar eru mjög fábrotnar eins og stendur. „Baðherbergin eru mjög óásjáleg og varla hrein. Hér er búið að vera meira og minna vatnslaust svo klósettin virka ekki. Það hefur ekki verið handsápa fyrr en einn af gestunum gaf mér handsápu í dag.“ Þóra segir að vinnubrögð starfsmanna í sóttkvínni séu líka ekki til fyrirmyndar. „Þeir gengu um í dag að mæla hitann og réttu þá öllum sama pennann. Svo er hitinn hérna algjörlega óbærilegur fyrir svona litla Íslendinga. Það er 36-38 stiga hiti og við erum að soðna. Svo erum við moskítóbitin í spað á hverju kvöldi og allan guðslangan daginn. Við erum með svona antíketó-mataræði, fáum bara kolvetni og sykur. 70 prósent af matnum eru hvít hrísgrjón og sojasósa. Við erum nokkuð viss um að við veikjumst á einhvern hátt hérna inni.“

Mynd með færslu
Hreinlæti á klósettum er nokkuð ábótavant.

Utanríkisráðuneytið og ræðismaðurinn Íslands í Víetnam hafa verið í sambandi við þau, sem og ferðaskrifstofan, upp á að senda þeim vistir sem þau vanhagar um, svo sem handklæði og annað. „Við fengum klósettpappír í dag frá ferðaskrifstofunni, við mjög mikil gleðilæti. Við getum nánast farið að selja hann á svörtum markaði,“ kímir Þóra. „Það eina sem við höfum í stöðunni er húmorinn, að vera létt og hress. En auðvitað inn á milli trúum við ekki þessu sem við höfum lent í. Það er eitt að vera í sóttkví en annað að vera settur í fangelsi, erum algjörlega frelsissvipt. Við erum á herstöð, það er allt fullt af hermönnum hérna.“

Það var óskemmtilegt fyrir Íslendingana að vakna í morgun, hitinn óbærilegur og það eina sem þau höfðu að breiða yfir sig voru flugnanet. „Við vöknuðum við hróp og köll í hermönnunum, og þá voru þeir að kíkja inn um gluggann, en það eru náttúrulega engin gluggatjöld. Þetta var súrrealískt.“ Þau vona þó það besta og trúa því vart að þau þurfi að hírast þarna í 14 daga í viðbót. „Við vitum að sendiráðunum í hinum Norðurlöndunum hefur tekist að koma sínum borgurum á hótel með skárri aðstæðum, við vonumst eftir að það verði hægt að gera eitthvað slíkt.“

Varla er neitt við að vera í sóttkvínni og engin kaffivél, sjónvarp, spil eða annað. „Ég tók allar ferðatöskurnar og endurraðaði í þær í dag, það tók klukkutíma. Ég sé fyrir mér að gera það aftur á morgun. Það er gjörsamlega ekkert við að vera.“