Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frelsishetja og friðarsinni ásökuð um þjóðarmorð

15.12.2019 - 07:30
epa08062038 Myanmar State Counselor Aung San Suu Kyi during the second day before the International Court of Justice (ICJ) in the Peace Palace, The Hague, The Netherlands, 11 December 2019. Myanmar State Counselor Aung San Suu Kyi defended her country at the International Court of Justice against accusations of genocide filed by The Gambia, following the 2017 Myanmar military crackdown on the Rohingya Muslim minority.  EPA-EFE/KOEN VAN WEEL
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Fyrir ekki svo löngu hefði það talist með ólíkindum að sjálf Aung San Suu Kyi stæði í réttarsal Alþjóðadómstólins í Haag til að bera hönd yfir höfuð sér og hernum í Mjanmar, sem liggur nú undir ásökunum um þjóðarmorð og þjóðernishreinsanir. En sú er raunin. Þessi fyrrum friðarverðlaunahafi Nóbels og eiginlegur leiðtogi Mjanmar, er nú borin þungum sökum.

Þetta hljómar kannski fjarstæðukennt, en er engu að síður satt. Í síðustu viku hélt hún til Hollands, til að verja sig og þjóð sína. Stjórnvöld í Gambíu reka málið fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag fyrir hönd Samtaka íslamskra ríkja, OIC, og ásaka þau stjórnvöld í Mjanmar og mjanmarska herinn um þjóðarmorð og þjóðernishreinsanir á Róhringjum, íslömskum minnihlutahópi -  í Rakhine-héraði í vesturhluta landsins, skammt frá landamærunum að Bangladesh.

Gambísk stjórnvöld óska eftir því að Alþjóðadómstóllinn samþykki tímabundnar aðgerðir sem tryggja öryggi Róhingja í Mjanmar, en það gæti tekið ár og daga þar til nokkur úrskurður fellur um hvort þjóðarmorð hafi verið framið eða ekki.

Og þarna stóð hún, Aung San Suu Kyi, boðberi friðar, sáttaumleitana og mannréttinda. Eða var það Aung San Suu Kyi, leiðtogi þjóðar sem stundar skipulagða útrýmingu fólks sem ekki nýtur sömu réttinda og aðrir íbúar landsins?

epa08062022 Abubacarr Tambadou (2-L front, seated), minister of justice of The Gambia, and Aung San Suu Kyi (C), Myanmar State Counselor, on the second day before the International Court of Justice (ICJ) in the Peace Palace, The Hague, The Netherlands, 11 December 2019. Myanmar State Counselor Aung San Suu Kyi defended her country at the International Court of Justice against accusations of genocide filed by The Gambia, following the 2017 Myanmar military crackdown on the Rohingya Muslim minority.  EPA-EFE/KOEN VAN WEEL
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Aung San Suu Kyi tekur til máls í Haag í vikunni sem leið.

Frelsishetjan Aung San Suu Kyi

Áður en lengra er haldið, skulum við forvitnast aðeins um þessa merkilegu konu sem stendur nú í ströngu. 

Aung San Suu Kyi er af mörgum talin valdamesta manneskjan í Mjanmar, sem áður hét Búrma og er stundum ennþá kallað Búrma - landi sem telur rúmlega fimmtíu milljónir íbúa og er staðsett milli Bangladess, Indlands, Kína, Laos og Tailands, og Bengalflóa í suðri. Hún er þó ekki forseti landsins, heldur svokallaður ríkissráðgjafi - auk þess að gegna embætti utanríkisráðherra. Lögum samkvæmt má hún ekki gegna embætti forseta þar sem hún á börn sem eru erlendir ríkisborgarar. En hún er engu að síður leiðtogi stærsta stjórnmálaflokksins í landinu. 

Saga hennar er nokkuð athyglisverð. Hún fæddist árið 1945 og er dóttir byltingarsinnans Aung San og Khink Kyi, sem var einnig stjórnmálamaður og síðar sendiherra. Aung San var myrtur á ríkisstjórnarfundi þegar Aung San Suu Kyi var aðeins tveggja ára en móðir hennar sá til þess að hún fengi bestu menntun sem völ var á í landinu. Að loknu grunnnámi nam hún stjórnmálafræði á Indlandi og þvínæst í Oxford-háskóla á Englandi.

Þar kynntist hún eiginmanni sínum, Michael Aris, fræðimanni í tíbetskum fræðum og eignaðist með honum tvo syni. En hugur Aung San Suu Kyi leitaði alltaf heim til Mjanmar, landsins í austri hvar herforingjastjórn réð ríkjum.

Mynd með færslu
 Mynd: New Mandala
Einræðisherrann og hershöfðinginn Ne Win lét af völdum 1988.

Mjanmar fer úr öskunni í eldinn

Árið 1962 rændi herinn í landinu völdum undir stjórn hershöfðingjans Ne Win. Win var forseti landsins allt til ársins 1981, og fram til ársins 1988 varð hann að nokkurs konar einræðisherra í því sem þá hét Sósíalíska Búrma. Og það var einmitt árið 1988 sem Aung San Suu Kyi fór að láta að sér kveða í Búrma. Hún hafði snúið aftur heim frá Bretlandi til að hugsa um aldraða móður sína, en á sama tíma höfðu mótmæli í landinu færst í aukana, þar sem herforingjastjórn Ne Win var harðlega mótmælt á götum úti. 

Síðar um sumarið ávarpaði Aung San Suu Kyi meira en hálfa milljón manna sem höfðu safnast saman í miðri höfuðborginni Yangon, sem kröfðust þess að herforingjastjórnin legði upp laupana. Hún hvatti fólk til að þess að beita ekki ofbeldi, innblásin af friðarboðskap Mahatma Ghandis og stofnaði stjórnmálaflokkinn NLD, eða Lýðræðislegu þjóðardeildina. 

En baráttan við herforingjastjórnina gekk illa og þótt Ne Win hafi vikið, tóku aðrir herforingjar við. Sú stjórn boðaði til kosninga sem NLD sigraði örugglega, en herforingjastjórnin virti niðurstöður kosninganna að vettugi. Segja má að Búrma hafi farið úr öskunni í eldinn. Herinn hélt völdum í landinu og var Aung San Suu Kyi sett í stofufanglesi.

Fær friðarverðlaun Nóbels

Sama ár, 1990, voru henni veitt friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu hennar fyrir lýðræðislegum umbótum og mannréttindum í Búrma. Synir hennar tóku við verðlaununum, enda móðir þeirra í stofufangelsi. 

Herforingjastjórnin tók þó skýrt fram að hún gæti yfirgefið landið, en aðeins undir þeim skilmálum að hún mætti aldrei snúa til baka. Það boð þáði hún ekki, og til að gera langa sögu stutta var Aung San Suu Kyi í stofufangelsi í fimmtán ár á tuttugu og eins árs tímabili. Allan þann tíma talaði hún fyrir friðsamlegum aðgerðum, og fordæmdi hvers kyns ofbeldi. Alþjóðasamfélagið fordæmdi nauðungarvistun hennar og setti þrýsting á stjórnvöld að sleppa henni lausri.

Það hafðist loks árið 2010, og Aung San Suu Kyi var frjáls ferða sinna. Í kjölfarið var viðskiptabanni víða aflétt og Mjanmar tók við sér á alþjóðavettvangi. Árið 2012 var hún kosin á þing og árið 2015 vann NLD flokkur hennar stórsigur í kosningunum. Þar sem hún gat ekki orðið forsætisráðherra eða forseti vegna þess að hún átti börn með útlendingi, eitthvað sem herforingjastjórnin hafði sett inn í stjórnarskrána til að koma í veg fyrir einmitt það að hún tæki einn daginn við völdum - var hún gerð að sérstökum ríkisráðgjafa. 

epa07783993 (FILE) - A general view of a Rohingya refugees' makeshift camp in Kutubpalang, Cox Bazar district, Bangladesh, 26 August 2018 (reissued 21 August 2019). Bangladesh is set to start repatriations for Rohingya Muslim refugees on 22 August, media reported. The Bangladeshi refugee commissioner said only 21 families out of 1,056 selected for repatriation were willing to be interviewed by officials about whether they wanted to return. Rohingya refugees in Bangladesh camps are said to fear they will face violence and oppression once back in Myanmar, media added.  EPA-EFE/MONIRUL ALAM
Hátt í 750 þúsund Róhingjar frá Mjanmar búa í flóttamannabúðum í Bangladess. Mynd: EPA-EFE - EPA
Úr flóttamannabúðum Róhingja í Cox's Bazar.

Þjóðarmorð á Róhingjum?

Áður en lengra er haldið skulum við venda okkar kvæði í kross og beina sjónum okkar að þjóðarbrotinu Róhingum, sem eru ástæða þess að mannréttindafrömuðurinn og frelsishetjan Aung San Suu Kyi er nú að verja sig og þjóð sína fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. 

„Þetta eru ein komma tvær, til ein komma þrjár milljónir manna, sem hafa búið töluvert lengi í Rakhine-héraði,“ segir Ingólfur Bjarni Sigfússon, fréttamaður og einn umsjónarmanna fréttaskýringaþáttarins Kveiks sem sýndur er á RÚV. Hann fór til borgarinnar Cox's Bazar, sem liggur næst landamærunum að Mjanmar frá Bangladesh. Rakihne-hérað, sem Ingólfur nefnir, er í vesturhluta Mjanmar.

„Við fórum þarna í lok nóvember og byrjun desember 2017. Þá hafði, það sem er einfaldlega hægt að kalla þjóðarmorð, staðið yfir frá því í ágúst. Og við vildum fara þarna að fjalla um aðstæður sjö til átta hundruð þúsund flóttamanna við frekar illan leik frá Rakhine héraði í Mjanmar, eftir að herinn byrjaði að herja á fólk þar.“

Róhingjar eiga sér langa og merkilega sögu sem nær langt aftur í aldir. Þeir eru múslimar, og hafa í raun aldrei notið neinna réttinda í Mjanmar en meirihluti íbúa Mjanmar er búddatrúar. Stjórnvöld í Mjanmar segja þá Bengali sem eiga enga kröfu eða tilkall til réttinda á þessu svæði. Þeir njóta engra borgaralega réttindi, eru ekki mjanmarskir ríkisborgarar, hafa ekki kosningarétt og búa við takmarkað ferðafrelsi, meira að segja innan Mjanmar.

Síðla árs 2016 hófu mjanmarski herinn og lögreglulið að herja á Róhingja í Rakhine-héraði. Herinn þótti ganga harkalega fram, og frásagnir herma að hermenn hafi stundað aftökur, skipulagðar nauðganir og frekari hrylling á Róhingjum. Það er svo í ágúst 2017 sem blóðug átök brutust út milli uppreisnarhópa úr röðum Róhingja, og hersins. Uppreisnarmönnum er gefið að sök að hafa ráðist að tugum landamærastöðva. Það átti eftir að hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar.

„Þá gerist það að herinn rúllar þarna inn með miklum látum. Myrðir fólk, stundar aftökur, hendir líkum í fjöldagrafir, nauðgar konum, og dæmi eru um að börnum hafi verið hent lifandi á eld,“ segir Ingólfur Bjarni.

Þetta kann að hljóma ótrúlega en frásagnir fólks bera allar að sama brunni. Uppreisnarmenn máttu sín lítils og var öll mótspyrna barin niður.

epa06198409 A Rohingya woman holds her baby boy as she tries to get off a truck after getting from the border near a camp in Ukhiya, Cox's Bazar, Bangladesh, 11 September 2017. Rohingya refugees experience huge problems to find shelters as they stay
 Mynd: EPA
Róhingjar í Cox' Bazar.

Stjórnvöld í Mjanmar kenna uppreisnarmönnum hins vegar um. Sú fullyrðing þykir nokkuð ótrúleg segir Ingólfur Bjarni.

„Hvort sem það eru þeir fáu fjölmiðlar sem hafa komist þarna inn, eða alþjóðastofnanir sem hafa komið sínu fólki inn til að rannsaka, eða þeir sem hafa heyrt vitnisburð flóttamannanna sjálfra, þeir komast allir að sömu niðurstöðu. Niðurstaðan er sú að þetta er bara ígildi þjóðarmorðs á þessu þjóðarbroti.“

Almennt er talað um aðgerðir hersins gegn Róhingjum í Rakhine-héraði einmitt sem þjóðarmorð. Þær aðgerðir sem hófust í ágúst 2017 af hálfu hersins eru í raun enn í gangi, yfir milljón Róhingja hafa flúið til nágrannaríkja, flestir til Bangladesh, en aðrir til Indlands, Taílands, Malasíu og annara landa í suður- og suðaustur Asíu. Tugþúsundir Róhingja hafa verið drepnar, og hundruð þúsunda beittar ofbeldi. Í ágúst á síðasta ári lagði Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna til að ákæra ætti hershöfðingja fyrir þjóðarmorð

Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sagði í skýrslu í september að draga ætti stjórnvöld í Mjanmar til ábyrgðar fyrir Alþjóðadómstólum og í síðasta mánuði taldi hún hættu á frekari ofsóknum gegn Róhingjum. 

epa08064500 Myanmar State Counselor Aung San Suu Kyi arrives at the Peace Palace on the last day of hearing on the Rohingya genocide case before the International Court of Justice (ICJ) in The Hague, The Netherlands, 12 December 2019. Myanmar State Counselor Aung San Suu Kyi defended her country at the International Court of Justice against accusations of genocide filed by The Gambia, following the 2017 Myanmar military crackdown on the Rohingya Muslim minority.  EPA-EFE/SEM VAN DER WAL
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Aung San Suu Kyi kemur í réttarsalinn í Haag á miðvikudag.

Þáttur Aung San Suu Kyi

Víkur þá sögunni aftur til Haag, hvar Aung San Suu Kyi hefur haldið uppi vörnum gegn þeim ásökunum sem Mjanmar liggur nú undir. Á miðvikudag sté hún í pontu og hélt uppi vörnum fyrir herinn í Mjanmar. Hún sagði ásakanirnar villandi, og í skötulíki. Herinn hefði einungis verið að bregðast við árásum Róhingja, þótt ekki sé hægt að útiloka að einhverjir hermenn hafi gengið of langt og gerst brotlegir við alþjóðleg mannúðarlög. Þá væri kannski ekki alltaf gerður greinarmunur á skæruliðum og almennum borgurum.

Enn fremur neitar Aung San Suu Kyi því staðfastlega að aðgerðirnar í Rakhine-héraði eigi nokkuð skylt við þjóðarmorð. 

Viðbrögð hennar eru athyglisverð, enda er hún að verja aðgerðir sama hers og hélt henni í stofufangelsi í 15 ár, og vekur það upp spurningar um hversu miklu stjórnvöld í Rangoon ráða í raun og veru í landinu.  Það er alvitað að Aung San Suu Kyi er ekki yfirmaður hersins, og að herinn í Mjanmar er sannarlega öflugur og stjórnar sér að vissu leyti sjálfur. En viðbrögð hennar, sem leiðtoga landsins, þóttu engu að síður sæta furðu.

„Það eru ýmsar kenningar uppi um hvers vegna hún kýs að mæta fyrir dómstóla og svara fyrir herinn,“ segir Ingólfur Bjarni. „Það eru kosningar í Mjanmar á næsta ári og kannski vill hún stilla sér upp sem einhverskonar verjanda þjóðarinnar, sverð hennar og skjöldur, það kann að vera. En hún er óneitanlega að tapa mannorðinu sem mannréttindafrömuður og friðarsinni með því að samþykkja það að það megi slátra fólki, og henda börnum á bál.“

Jafnvel þótt Aung San Suu Kyi hafi ekki völd yfir hernum, hefur hún legið undir ámæli, meðal annars frá Sameinuðu þjóðunum, fyrir bregðast ekki við þjóðernishreinsunum hersins. Og í stað þess að sitja undir þeirri gagnrýni, hefur hún ákveðið að gerast málsvari hersins fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag.

„Hvernig hún hefur kosið að ganga fram í þessu máli þýðir að hún er ekki auðfúsur gestur víða í heiminum. Það stenst auðvitað ekki að vera mannréttindafrömuður, en virða bara mannréttindi sumra, en hina má bara drepa. Þú getur réttlæt það með öllum mögulegum hætti en þú getur ekki haldið áhrifum þínum og orðspori á alþjóðavettvangi með þeim hætti,“ segir Ingólfur Bjarni.

Biðin eftir niðurstöðu gæti verið löng

Það verður þó að hafa í huga, að gambísk stjórnvöld, sem reka málið fyrir hönd samtaka Íslamskra ríkja, eru í raun aðeins að biðja dómstólinn um að leggja til að gripið verði til aðgerða sem tryggja öryggi þeirra Róhingja sem eru eftir í Mjanmar, og verndi þá gegn frekara ofbeldi. Til þess að dómstóllinn úrskurði að stjórnvöld í Mjanmar hafi gerst sek um þjóðarmorð, þarf hann að komast að þeirri niðurstöðu að ríkið hafi viljað útrýma Róhingjum. Jafnvel þótt það verði raunin, hefur dómstóllinn engin úrræði til þess að tryggja að slíkum úrskurði fylgi afleiðingar, og hvorki Aung San Suu Kyi né hershöfðingjar yrðu þá sóttir til saka eða réttað yfir þeim, þótt það gæti leitt til viðskiptaþvinganna. Það gæti sömuleiðis tekið dómstólinn mörg ár að komast að niðurstöðu.

„Það dapurlega er náttúrulega það að þótt að þetta sé dómstóll með virðulegt heiti þá hefur hann engin úrræði til þess að grípa til neinna aðgerða, þannig það má segja að þetta verði í besta falli bara siðferðislegur dómur, hver sem hann verður,“ segir Ingólfur Bjarni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá flóttamannabúðum Róhingja í Cox's Bazar.

Hver er staða Róhingja í dag?

Hundruð þúsunda Róhingja hafa flúið Bangladess síðan herinn lét til skarar skríða á haustdögum 2017. Í september á þessu ári var talið að tæplega ein milljón Róhingja hefðist við í flóttamannabúðum í Bangladess. Í mars á þessu ári sögðu þar lend stjórnvöld hingað og ekki lengra, við getum ekki tekið á móti fleiri flóttamönnum.

Ingólfur Bjarni bætir því við að Bangladesar hafi tekið nokkuð vel á móti Róhingjum, en vilji nú hafa að losna við þá. „Stjórnvöld í Bangladess segja að það verði að koma þessu fólki í burtu. Engar flóttamannabúðir í sögunni hafa sprottið jafn hratt og eru jafn fjölmennar.“

Bangladess hefur gert áætlanir um að koma um hundrað þúsund flóttamönnum fyrir á eyjunni Bhasan Char á Bengalflóa, sem hefur mætt misjöfnum viðbrögðum alþjóðasamfélagsins. Mannúðarsamtök segja þessa ráðagerð vera þvingaða fólksflutninga. Þá hafa stjórnvöld í Mjanmar sagt að Róhingjar séu velkomnir heim og það sé búið að ganga frá lausum endum, gera ráðstafanir og tryggja öryggi þeirra.

„Það trúir því einfaldlega enginn, og það hefur gengið hægt og illa að sannfæra flóttamenn um að fara. Þannig í besta falli er hægt að segja þessi staða sé í limbói.“

epa08059201 People hold images of Myanmar State Counsellor Aung San Suu Kyi during a rally in Yangon, Myanmar, 10 December 2019. Suu Kyi appeared before the International Court of Justice (ICJ) in the Netherlands on 10 December to defend her country against accusations of genocide filed by The Gambia, following the 2017 Myanmar military crackdown on the Rohingya Muslim minority.  EPA-EFE/LYNN BO BO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mynd frá útifundi til stuðnings Aung San Suu Kyi í Yangon, höfuðborg Mjanmar, í síðustu viku.

Þögn Aung San Suu Kyi „ærandi“

Lögfræðingurinn Philppe Sands, sem rekur málið fyrir hönd gambískra stjórnvalda, sagði í réttarhöldunum í vikunni að Aung San Suu Kyi hafi hundsað ásakanir um fjöldamorð og nauðganir á Róhingjum, og nauðungarflutninga þeirra. Þögn hennar um þessi atriði sé ærandi.

Aung San Suu Kyi tók svo aftur til máls seint á fimmtudagskvöld, hvar hún hvatti dómstólinn til að vísa málinu frá og virða stjórnarskrá landsins. 

Að hvaða niðurstöðu dómurinn kemst verður ekki vitað, það gæti tekið mörg ár að koma í ljósi. En það er ljóst að ásýnd Aung San Suu Kyi verður aldrei söm. Friðarhetjan og baráttukonan fyrir mannréttindinum, konan sem fyrirlítur ofbeldi, kúgun og ofsóknir - horfist ekki augu við þau voðaverk sem herinn í hennar landi fremur á íbúum landsins.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður