Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Frelsisflokkurinn eins og mafía

16.12.2019 - 16:22
Heinz-Christian Strache. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Ibiza-skandallinn varð til þess að Heinz-Christian Strache varð að segja af sér sem varakanslari Austurríkis og sem leiðtogi Frelsisflokksins. Nú er hann sakaður um að hafa tekið við töskum fullum af peningum frá Austur Evrópu fyrir pólitíska greiða. Myndir sýna reiðinnar býsn af hundrað evru seðlabúntum.

Myndum af peningabúntunum var lekið til og síðan birtar í þýsku blöðunum Der Spiegel og Süddeutsche Zeitung og eru samkvæmt rannsóknarskýrlsum í Austurríki teknar af fyrrverandi lífverði og einum nánasta samstarfsmanni Heinz-Christian Strache. Rannsókn á myndunum hefur leitt í ljós að peningatöskurnar voru afhentar hér og þar um Austurríki, við ráðhúsið í Vín, við flokksskrifstofu Frelsisflokksins og við aðalgötu í þekktum ferðamannabæ. Þegar Ibiza skandallinn kom upp í vor var skipuð sérstök rannsóknardeild innan lögreglunnar og hún rannsakar nú þessa dularfullu peningatöskur. 

Buðu ríkisverkefni fyrir greiðslur í kosningasjóð

Spiegel og Süddeutsche birtu einmitt Ibiza myndböndin í maí en þar sést leiðtoginn Heinz-Christian Strache og þingflokksformaðurinn Johann Gudenus ræða fjálglega við konu sem þeir héldu að væri náfrænka rússnesks auðjöfurs. Þeir lofuðu ábatasömum ríkisverkefnum í skiptum fyrir drjúg framlög í kosningasjóð Frelsisflokksins. Konan var hins vegar tálbeita og allt tekið upp í glæsivillunni á Ibiza, bæði hljóð og mynd.

Ríkisstjórnin hrökklaðist frá völdum

Ibiza-skandallinn hafði gríðarleg mikil áhrif í austurrískum stjórnmálum. Ríkisstjórn kanslarans Sebastian Kurz hrökklaðist frá völdum og Strache sem þá var varakanslari sagði sig frá öllum pólitískum afskiptum. Hann var síðar sakaður um meiriháttar bókhaldsbrot og fjársvik og er nú til rannsóknar fyrir umfangsmikinn fjárdrátt. 

Siðleysið virðist algjört

Þessar nýju upplýsingar og myndir af íþróttatöskum fullum af peningum benda til þess að siðleysi Heinz-Christian Strache hafi verið algjört. Rannsóknin bendir mjög eindregið til þess að Strache hafi sjálfur tekið við peningatöskunum og að peningarnir hafi komið frá vafasömum náungum í austanverðri Evrópu.

Milligöngumaðurinn fékk ekkert og höfðaði mál

Eftir að frægðarsól Strache hrundi við Ibiza-skandalinn í vor hafa fyrrverandi samstarfsmenn hans stigið fram að vitnað gegn honum. Aðrir virðast hafa tekið þátt í spillingunni og fjölmörg spillingarmál eru til rannsóknar eða til meðferðar fyrir dómstólum. Afar vafasamt fólk og gríðarlegar háar fjárhæðir koma þar við sögu. Allt virðist hafa verið falt og persónulegum fjármálum blandað saman við flokksrekstur og ríkisrekstur. Eitt málið er komið til Hæstaréttar. Þar borgaði úkraínskur auðjöfur tíu milljónir evra, eða einn komma fjóra milljarða króna, til að tryggja sér samninga í Austurríki. Flokkurinn fékk fjórar milljónir evra, formaðurinn Strache tvær, lögmaðurinn sem sá um samninginn tvær og milligöngumaðurinn tvær. Sá fékk aldrei sinn hluta og höfðaði mál. Leitt er að því líkum að myndirnar af seðlabúntunum í íþróttatöskunum séu úr þessu afar vafasama máli. 

Lifði eins og greifi og útgjöldin gengdarlaus

Fyrrverandi samstarfsmenn Strache segja undir nafnleynd í Der Spiegel að lifnaðurinn á Strache hafi verið afar sérkennilegur. Starfsmenn á flokkskrifstofunni hafi fengið seðlabúnt til að bóka sumarleyfi formannsins og fjölskyldu hans. Einn segist hafa leigt einkaþotu fyrir formanninn með stuttum fyrirvara. Strache lifði eins og greifi og útgjöldin voru gengdarlaus. Það borgaði enginn reikning þegar hann var annars vegar. Óljóst virðist hins vegar hvað fór á reikning flokksins og hvað Strache greiddi úr eigin vasa. Þar virðast hafa verið mjög óljós skil.

Gríðarlega vinsæll flokksleiðtogi

Í Spiegel segja flokkshestar að stór hluti starfans hafi verið að redda nótum af öllu hugsanlegu tagi. Þegar einhverjum kvittunum var hafnað sem augljóslega voru vegna einkaneyslu voru starfsmenn sendir út og suður til að redda öðrum kvittunum í staðinn. Strache var Frelsisflokkurinn og var leiðtogi hans í fjórtán ár. Hann tók við honum fylgislausum en kom honum í ríkisstjórn og flokkurinn mældist oft stærsti flokkur landsins í könnunum. Fylgið hrundi úr tuttugu og sex prósentum niður í sextán prósent í kosningunum í haust. Ríflega þriðji hver kjósandi hafði yfirgefið flokkinn. Strache tilkynnti eftir þetta að flokkurinn hafi beðið afhroð í kosningum að hann væri hættur afskiptum af stjórnmálum. Í tilkynningu sinni baðst Strache afsökunar á mistökum sínum, en vísaði ásökunum á bug og kvaðst vera fórnarlamb samsæris gegn Frelsisflokknum í aðdraganda kosninganna. Á föstudaginn var Strache svo rekinn úr flokknum. Það var samþykkt samhljóða.

Vilja lögsækja fyrrverandi formann sinn

Varaformaðurinn Manfred Haimbuchner segir að flokkurinn hafi ekkert lært af skandölum forverans Jörg Haider sem lést í bílslysi árið 2008. Ekkert hafi dregið úr samstarfi við vafasama karaktera og Heinz-Christian Strache hafi verið dýrkaður innan flokksins eins og rokkstjarna. Varaformaðurinn vill snúa vörn í sókn. Hann vill að flokkurinn lögsæki fyrrverandi formann sinn og krefjast skaðabóta. 

Gull, virki og happagripur í nærbuxum

Viðmælendur Der Spiegel draga upp mjög sérkennilega mynd af flokksleiðtoganum fyrrverandi. Hann var til dæmis sannfærður um að Evópusambandið ætlaði að afnema pappírspeninga og fjárfesti því gríðarlega í gulli. Hann hafi líka alls kyns furðulegar neyðaráætlanir, til dæmis ef NATO myndi ráðast inn í Austurríki. Þá átti að flytja hann, helstu stjórnendur flokksins og fjölskyldur þeirra í virkið svokallaða í Austur Týrol. Þar fundust stæður af gulli í ágúst. Hann átti alltaf miklar byrgðir af bensíni og gekk alltaf með sérstakan happagrip í nærbuxunum. 

Vinur litla mannsins og fádæma lúxuslíf

Heinz-Christian Strache var talsmaður litla mannsins í Austurríki og var um tíma langvinsælasti stjórnmálamaður landsins. Fjórðungur þjóðarinnar kaus hann í kosningum og í könnunum mældist fylgi flokksins enn hærra. Talsmaður litla mannsins lifði hins vegar fádæma lúxuslífi og virðist lítinn greinarmun hafa gert á eigin fjármálum og fjármálum flokks og þjóðar. Hann virtist hafinn yfir lög en bíður nú dóms.