Franska stjórnin bakkar með eldsneytishækkanir

04.12.2018 - 08:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Franska ríkisstjórnin tilkynnir síðar í dag að ekkert verði af fyrirhuguðum eldsneytishækkunum sem voru kveikja mikilla mótmæla sem hafa staðið í rúmar þrjár vikur. Gulu vestin, eins og hreyfingin kallar sig, hafa mótmælt af hörku í miðborg Parísar og víðar í Frakklandi. Ítrekað hefur komið til átaka og lögregla hefur beitt bæði táragasi og vatnsbyssum til að dreifa mótmælendum.

Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, tilkynnti þetta í morgun. Ekkert verður því af hækkun eldsneytis sem átti að taka gildi fyrsta janúar. Forsætisráðherrann segir að þessu verði fylgt eftir með fleiri aðgerðum sem miða að því að lægja óánægju almennings og skapa ró í samfélaginu eftir mótmælaaðgerðir sem staðið hafa í hálfan mánuð. Þrír hafa látið lífið í mótmælunum og hundruð slasast. Hluti mótmælenda þótti ganga alltof langt á laugardaginn í skemmdarverkum en miklar skemmdir voru unnar á styttum við Sigurbogann í miðborg Parísar. 

Mótmælin hófust vegna óánægju með eldsneytishækkanir en þau hafa einnig beinst að Emmanuel Macron Frakklandsforseta og stjórn hans. Hann tók við fyrir tveimur árum og boðaði miklar breytingar en vinsældir hans hafa dvínað mjög upp á síðkastið. Macron sakar andstæðinga sína í pólitíkinni um að hvetja mótmælendur til átaka til að koma í veg fyrir fyriráætlanir hans. 
 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi