Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Framvinda byggðaáætlunar kynnt Alþingi

17.12.2019 - 13:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fram skýrslu á Alþingi um framvindu stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2024, sem samþykkt var í júní 2018. Flest verkefni eru hafin. Áætlunin leggur sérstaka áherslu á svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

Byggðaáætlun er í fyrsta lagi ætlað að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu. Í öðru lagi að jafna lífskjör og í þriðja lagi að stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. 

Flest verkefni þegar hafin

Í byggðaáætlun eru settar fram 54 aðgerðir sem hver um sig tengist einu þriggja markmiða áætlunarinnar. Verkefnamarkmið eru skilgreind við hverja aðgerð ásamt stuttri lýsingu, fram kemur hvaða ráðuneyti ber ábyrgð á framkvæmdinni. Allflest verkefni sem falla undir byggðaáætlun eru í vinnslu samkvæmt yfirliti Samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytisins. Þá er fjórum verkefnum lokið og eitt sem ekki er hafið. 

Við hvert markmið eru tveir mælikvarðar, alls sex mælikvarðar til að festa reiður á framvindu hvers verkefnis fyrir sig. Dæmi um mælikvarða er fjöldi starfa í ráðuneytum og stofnunum, sem er skilgreindur „án staðsetningar“. Markmiðið er að 10 prósent allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024. Annað dæmi um mælikvarða er hlutfall þeirra sem búa innan við 30 km frá heilsugæslustöð, grunnskóla og dagvöruverslun.

Fjármögnun aðgerða þríþætt

Í fyrsta lagi eru aðgerðir sem eingöngu eru fjármagnaðar af byggðalið samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Sem dæmi um slíkar aðgerðir má nefna þjónustukort og Brothættar byggðir. Í öðru lagi samfjármögnun sem felur í sér að fjármagn kemur annars vegar af byggðalið og hins vegar frá viðkomandi ráðuneyti. Dæmi um slíkar aðgerðir eru Ísland ljóstengt og innleiðing fjarheilbrigðisþjónustu. Í þriðja lagi eru aðgerðir sem fjármagnaðar eru að öllu leyti af viðkomandi ráðuneyti. Dæmi um slíkar aðgerðir eru stuðningur við uppbyggingu smávirkjana og fleiri flughlið inn í landið. Samkvæmt byggðaáætlun er áætlað að verja um 3,5 milljörðum kr. af byggðalið fjárlaga á tímabilinu 2018–2024. Það er ekki heildarkostnaður við framkvæmd áætlunarinnar, en ráðuneyti leggja til fjármagn til einstakra aðgerða.

Byggðastofnun ánægð með framvinduna

Í skýrslunni kemur fram að það sé mat Byggðastofnunar að framkvæmd byggðaáætlunar hafi farið vel af stað. Stofnunin telur að samráð sem haft var við mótun áætlunarinnar hafi átt stóran þátt í því hversu vel hafi gengið að framfylgja byggðaáætlun. Byggðastofnun telur að breytt vinnulag við gerð og framkvæmd byggðaáætlunar sé mjög til bóta og að vægi hennar við ákvarðanatöku hafi jafnframt aukist verulega. Byggðastofnun segist merkja aukna áherslu á byggðamál hjá stjórnvöldum og fjölmörg þingmál tengist beint og markvisst einstökum tillögum byggðaáætlunar. Þá sé áætlunin heildstæðari og nái til mun fleiri sviða en fyrri áætlanir. Of snemmt sé að meta ávinning byggðaáætlunar, en full ástæða sé til að ætla að hún eigi eftir að skila árangri. Þá telur Byggðastofnun að sú áhersla að samþætta byggðaáætlun annarri stefnumörkun hafi þegar skilað árangri.

Hægt er að sjá skýrsluna hér.