Einn fyrirlesara á málþinginu var Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrverandi þróunarstjóri hjá Google, sem ræddi nýjar tæknilausnir og stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi. Guðmundur sagði frá nýrri nýsköpunarstefnu Íslands, þróun snjallhátalara hjá Google og velti því upp hvort íslenskan væri inni í myndinni hjá stóru fyrirtækjunum og hvernig íslenskt útvarp myndi þróast á næstu árum í nýju tækniumhverfi.
„Þegar kemur að því að þróa tungumál í tengslum við svona tækni þá eru það ótal margir þættir sem koma að. Ég tók þann samanburð við það þegar í gamla daga við settum íslenska stafi á límmiðum á takkaborðið og svo búið. Það var rosa einfalt, miðað við í dag eru það svo margir þættir. Þú þarft að kenna þeim að skilja tungumálið, kenna þeim að skilja málfræðina, þú þarft að kenna þeim að tala til baka. Þetta eru fjölmargir þættir og þess vegna er þetta svo stórt verkefni,“ segir Guðmundur Hafsteinsson.