Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Framtíðin er sú að við getum talað við tækin“

Mynd: RÚV / RÚV

„Framtíðin er sú að við getum talað við tækin“

24.05.2019 - 17:06

Höfundar

Á málþinginu Framtíð útvarps, sem haldið var í húsnæði RÚV við Efstaleiti, var kynnt nýtt smáforrit sem gefur fólki kost á að nota raddstýringu til að hlusta á útvarpsefni RÚV. Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir þetta nánustu framtíð.

Einn fyrirlesara á málþinginu var Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrverandi þróunarstjóri hjá Google, sem ræddi nýjar tæknilausnir og stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi. Guðmundur sagði frá nýrri nýsköpunarstefnu Íslands, þróun snjallhátalara hjá Google og velti því upp hvort íslenskan væri inni í myndinni hjá stóru fyrirtækjunum og hvernig íslenskt útvarp myndi þróast á næstu árum í nýju tækniumhverfi. 

„Þegar kemur að því að þróa tungumál í tengslum við svona tækni þá eru það ótal margir þættir sem koma að. Ég tók þann samanburð við það þegar í gamla daga við settum íslenska stafi á límmiðum á takkaborðið og svo búið. Það var rosa einfalt, miðað við í dag eru það svo margir þættir. Þú þarft að kenna þeim að skilja tungumálið, kenna þeim að skilja málfræðina, þú þarft að kenna þeim að tala til baka. Þetta eru fjölmargir þættir og þess vegna er þetta svo stórt verkefni,“ segir Guðmundur Hafsteinsson.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Baldvin Þór Bergsson og Guðmundur Hafsteinsson ræddu um snjalltæki framtíðarinnar.

Jón Páll Leifsson kynnti smáforritið Brodda á málþinginu, app sem gefur fólki kost á að nota raddstýringu til að hlusta á útvarpsefni RÚV og er væntanlegt á næstu mánuðum. Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, ræddi verkefnið lítillega og hvaða þýðingu þetta hefði fyrir íslenska tungu.

„Þetta er ótrúlega spennandi verkefni af því að framtíðin er sú að við getum talað við tækin okkar og við teljum að útvarp muni færast í auknum mæli yfir í það að við getum sótt efni í gegnum snjalltæki með því að tala við þau og Broddi er fyrsta verkefnið sem við erum að vinna með okkar samstarfsaðilum og við vonumst til að innan fárra mánaða verði það orðið aðgengilegt og þá geti fólk talað við símana og snjalltækin og kallað fram sérstakar fréttir og þess háttar,“ segir Magnús Geir.