Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Framsókn ekki boðið til samstarfs

16.06.2014 - 08:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Framsókn og flugvallarvinum var ekki boðið til samstarfs í nefndum og ráðum í borginni, líkt og Sjálfstæðisflokknum. Þetta segir Sigurður Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar, í samtali við fréttastofu. Forvígismaður Framsóknar segir samstarfið þýða að Framsókn sé einn í stjórnarandstöðu.

Greint var því í Morgunblaðinu í morgun að þreifingar væru á milli Sjálfstæðisflokksins og meirihlutans um samstarf í nefndum. Þetta eru stjórn OR, stjórn Faxaflóahafna, heilbrigðisnefnd og öll hverfisráð borgarinnar.

S. Björn Blöndal, verðandi formaður borgarráðs, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að Framsókn hefði ekki verið boðið til samstarfs, líkt og Sjálfstæðisflokknum. Þegar meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar tók við völdum fyrir fjórum árum var ekki hefðbundin kosning milli meirihluta og minnihluta í ráð og nefndir heldur var samkomulag um að bera fram eina tillögu að nefndarskipan.

Fréttastofa náði ekki tali af Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, leiðtoga Framsóknar og flugvallarvina, í morgun. Í Morgunblaðinu er haft eftir henni að þetta samstarf við meirihlutann geri skýran mun á Framsókn og Sjálfstæðisflokknum sem sé með þessu kominn undir pilsfald meirihlutans - Framsókn sé einn í stjórnarandstöðu.

Þessu vísar Halldór Halldórsson, forvígismaður Sjálfstæðisflokksins í borginni, á bug í samtali við fréttastofu. „Þarna er tækifæri fyrir okkur að fjölga fulltrúum í nefndum. Við nýtum okkur það að sjálfsögðu. Þetta hefur ekkert með málefnin að gera enda erum við ósammála mörgu af því sem hefur verið sett fram í málefnasamningi.“

[email protected]