Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Framlengja ekki álagningu auðlegðarskatts

24.08.2013 - 17:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkisstjórnin ætlar ekki að framlengja álagningu auðlegðarskatts, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Hann telur hugsanlegt að hann fari í bága við stjórnarskrána og segir dómsmál í uppsiglingu vegna hans.

Auðlegðarskattur var lagður á tímabundið af fyrri ríkisstjórn en hann leggst á hreina eign skattgreiðenda. Næsta ár verður síðasta gjaldárið sem hann verður lagður á.

Bjarni ræddi við Helga Seljan í Vikulokunum á rás 1 í morgun. Bjarni segir að það standi ekki til að framlengja skattinn með lögum umfram það sem fyrri ríkisstjórn hafi ákveðið. „Ég tel reyndar að það sé nú allt á mörkum þess sem heimilt er samkvæmt stjórnarskrá og það sem nú þegar hefur verið ákveðið ef það þá brýtur ekki hreinlega stjórnarskrána. Það getur vel verið að það verði látið reyna á það fyrir dómstólum.“ Aðspurður um það hverjir láti á það reyna segir Bjarni að það geti þeir gert sem greiða skattinn. „Þar er einfaldlega um það að ræða að það sé gengið svo hart fram í þessari skattlagningu að það jaðri eða gangi gegn eignaréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Og þarna er þá um það að ræða að mönnum er gert að greiða skatt sem er í raun og veru margfaldar ráðstöfunartekjur viðkomandi aðila,“ segir Bjarni. 

Hann segir að vel geti verið að ríkisstjórnir og þing geti komist upp með slíkt í skamman tíma vegna sérstakra aðstæðna. Það sé þó alveg ábyggilegt að slíkir hlutir myndu ekki standast stjórnarskrá til lengdar. En veit hann til þess að slík mál séu í undirbúningi? „Já mér skilst að slík mál hafi verið þingfest, ég veit ekki betur, ég hef svo sem ekki verið að lesa nein málskjöl í svoleiðis málum, mér skilst að það hafi verið þannig.“