Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Framleiðandi öndunarvéla annar ekki eftirspurn

28.03.2020 - 14:22
epa08324935 Empty covered beds with ventilators during a press appointment in a room of the Vivantes Humboldt Hospital in Berlin, Germany, 26 March 2020. Berlin health senator Dilek Kalayci and Vivantes Managing Director Andrea Grebe presented a situation with a dummy and a breathing machine. Due to the ongoing pandemic of the COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus, the availability of ventilators is limited.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Á sjötta þúsund hafa nú látist á Spáni vegna kórónuveirunnar. Spánn er nú í fjórða sæti á lista yfir þau lönd þar sem flest kórónuveirusmit hafa greinst í heiminum og í öðru sæti á heimsvísu yfir flest dauðsföll vegna veirunnar. Í Þýskalandi starfar stærsti framleiðandi öndunarvéla í heiminum, en þar á bæ anna þau ekki eftirspurn.

Spánn

Á sjötta þúsund hafa nú látist á Spáni vegna kórónuveirunnar. 832 dauðsföll voru skráð þar í landi síðastliðinn sólarhringinn. Spánn er það land í Evrópu þar sem flest smit hafa greinst, á eftir Ítalíu. Ríflega 72 þúsund hafa greinst með Covid 19 veiruna á Spáni og 5.690 látist. Spánn er nú í fjórða sæti á lista yfir þau lönd þar sem flest kórónuveirusmit hafa greinst í heiminum og í öðru sæti á heimsvísu yfir flest dauðsföll vegna veirunnar. 

Stjórnvöld á Spáni hafa lýst yfir hæsta viðbúanðarstigi og útgöngu- og samkomubann er þar í gildi til 12.apríl hið minnsta. 

Þýskaland 

Í Þýskalandi hefur sömuleiðis orðið mikil aukning á fjölda skráðra smita. Fleiri en 6.000 ný smit voru skráð þar í landi síðastliðinn sólarhringinn og eru nú alls 48.582 talsins. Það setur Þýskaland í fimmta sæti á lista yfir lönd í heiminum með flest kórónuveirusmit.

Dräger fyrirtækið í Þýskalandi framleiðir öndunarvélar og er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í heiminum. Eftirspurnin eftir öndunarvélunum er langt umfram framleiðslugetu fyrirtækisins Dräger. Forstjórinn Stefan Dräger segst í viðtali við Der Spiegel það undarlegt að hafa örlög fólks í hendi sér með þessum hætti, en fyrirtækið reyni að vega og meta þörfina í hverju landi fyrir sig. Það sé óvinnandi vegur að uppfylla óskir allra um fjölda öndunarvéla. 

Írland

Á miðnætti í kvöld tekur gildi útgöngubann á Írlandi. Yfir tvö þúsund hafa greinst smitaðir í landinu og 22 hafa látið lífið af völdum sjúkdómsins. Fyrr í mánuðinum var skólum, háskólum og knæpum í landinu lokað. Eins voru fyrirtæki sem stunda ekki nauðsynlega starfsemi beðin um að loka vinnustöðum sínum fyrr í vikunni.

Nú verður stranglega bannað að fara á milli húsa nema í nauðsynlegum tilgangi, eins og kaupa mat og lyf. 
Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, biðlaði til landa sinna á blaðamannafundi í gærkvöld að fórna einstaklingsfrelsi sínu fyrir stærri málstað.