Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Framleiða trefjaplötur úr iðnaðarhampi skyldum kannabis

20.01.2020 - 18:09
Mynd með færslu
 Mynd: Iðnaðarhampur - RÚV
Bændur í Berufirði hafa búið til fyrstu trefjaplöturnar úr heimaræktuðum hampi og vilja vekja athygli á fjölbreyttu notagildi plöntunnar. Iðnaðarhampur er af kannabisætt og þótt hann sé ónothæfur sem vímugjafi ríkir óvissa um það hvort ræktunin stenst íslensk lög.

Á bænum Gautavík í Berufirði eru framleiddir útskornir munir undir vörumerkinu Geislar. Bændurnir þar nota innflutt hráefni en gera nú tilraunir með plötur sem þau framleiða sjálf úr stilkum iðnaðarhamps. „Þetta er hampurinn, þetta er hráefni sem við ræktuðu hér úti í sumar. Nema það er búið að leyfa þessu að veðrast úti og svo er búið að þurrka þetta. Þetta er síðan malað og svo setjum við þetta í mót með lími og það er pressað saman og þá fáum við plötu til að skera út í,“ segir Pálmi Einarsson, bóndi og hönnuður.

Fjallað var um málið í sjónvarpsfréttum í kvöld. Horfa á fréttatíma

Hampur notaður í fjöbreyttar vörur

„Meginmarkmiðið er að vekja athygli á fjölbreyttu notagildi hampsins og hvernig hann getur hjálpað okkur til að stórauka sjálfbærni á fjölmörgum sviðum. Það sem hægt er að gera úr honum eru meðal annars trefjaplötur, steypa, pappír, eldsneyti og textíll. Eins matvæli, fæðubótarefni og lyf. Það eru fræin sem koma beint af plöntunni, það er olían sem er kaldpressuð úr fræjunum, og svo er hægt að nota hratið sem skepnufóður. Það er prótínið og svo ef maður þurrkar laufin og blómin þá er hægt að búa til te,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir, bóndi og ráðgjafi.

Þegar fréttastofa var á ferð í Gautavík voru þar fimm daga gamlar plöntur, þær fyrstu af íslenskum hampfræjum sem urðu til í sumar. „Við verðum að finna okkar yrki sem hentar íslenskum aðstæðum. Það getur tekið smástund að finna eitthvað sem er nógu fljótsprottið og þolir líka loftslagið á Íslandi. Það er svona það sem við erum að vinna í en því miður þá hefur þetta alltaf verið ofsalega pólitísk planta,“ segir Pálmi.

Telur nóg að skýra núgildandi lög

Í tjaldi gera þau tilraunir með inniræktun og ólík yrki iðnaðarhamps. Hann er áþekkur ólöglegum kannabisplöntum en hefur aðra eiginleika og inniheldur innan við 0,2 prósent af THC og því ónothæfur sem vímugjafi. Ræktun iðnaðarhamps hefur verið lögleg innan Evrópusambandsins í tuttugu ár. Þau fengu innflutningsleyfi hjá MAST í vor og nýverið styrk frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Lyfjastofnun hefur hins vegar efasemdir og hefur hindrað frekari fræinnflutning. Stofnunin túlkar lögin þannig að allar afleiður kannabiss séu bannaðar óháð innihaldi THC. Lögreglan kom í heimsókn í Gautavík en aðhafðist ekkert. Ráðuneytið vinnur að því að leysa málið. „Þannig að það þarf í raun að skýra þessa lagalegu óvissu. Að mínum dómi þarf eingöngu að koma með lögskýringu þar sem kemur fram að í orðinu kannabis er átt við plöntur sem innihaldi þennan vímugjafa í meira en snefilmagni,“ segir Oddný.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV