Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Framlag Íslands opnað í Feneyjum

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Grímsson - RÚV

Framlag Íslands opnað í Feneyjum

08.05.2015 - 12:17

Höfundar

Framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins var opnað í morgun eftir að munnlegt leyfi var gefið fyrir útstillingunni í gærkvöld. Verkið, eftirlíking af mosku, var talið auka hryðjuverkaógn, en að sögn Guðmundar Odds Magnússonar prófessors er mikill kærleikur á svæðinu og engin sjáanleg ógn.

Framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum er verkið Moskan eftir Christoph Büchel. Hún er í yfirgefinni kirkju frá tíundu öld. Yfirvöld veittu verkinu ekki leyfi þar sem kirkjan stendur við síki og því er erfitt að hafa nauðsynlega öryggisgæslu í ljósi hryðjuverkaógnar frá öfgahópum. Óvíst var um framvindu málsins í gær, en í gærkvöld veittu borgaryfirvöld munnlegt leyfi fyrir verkinu.

Listamaðurinn Goddur var viðstaddur opnunarathöfnina í Moskunni klukkan 10 í morgun þegar fréttastofa náði tali af honum. „Við erum núna að hlusta á Sverri Agnarsson, frá Félagi múslima í Reykjavík. Leyfi fyrir sýningunni er ekki enn komið formlega en þeir fengu munnlegt já.“

Goddur segir andrúmsloftið friðsælt og fallegt. Múslimar í Feneyjum hafi þakkað fyrir framlagið, sem er talið stórmerkilegt, og tali um ljósið sem komi frá Íslandi.

Hann segir að á 20 til 30 Íslendingar séu í moskunni núna og um 300 Feneyjabúar og listamenn. Það sé gaman að sjá blöndu múslima og elítunnar úr listalífinu njóta verksins. Goddur bendir þó á að um sé að ræða ofurraunsæislega útstillingu á mosku, en það sé óskiljanlegt hvernig hægt sé að tala um ógn á svæðinu. Það sé bara friður og kærleikur.

„Hér var talsverður hópur lögreglumanna í gær, óeinkennisklæddum, sem tók þetta allt saman út og þeir höguðu sér mjög kurteislega. En þetta er engin ógn,“ segir Goddur.

Allir þurfa að fara úr skónum eins og tíðkast í moskum og eftir ræðuhöld snæða allir saman á gólfinu og spjalla. Allt bendir til að formlegt leyfi komi á pappír fljótlega.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ekkert leyfi fyrir íslensku moskunni

Menningarefni

Moska framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum