Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Framkvæmdum við Búðarháls að ljúka

06.08.2013 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun lýkur á þessu ári. Þá verða virkjunarkostir í Þjórsá og Tungnaá fullnýttir.

Um og yfir þrjú hundruð manns, að jafnaði, hafa unnið við gerð Búðarhálsvirkjunar síðustu misserin. Virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunar við Búðarháls, á milli Sultartangastöðvar og Hrauneyjafossstöðvar, eru fyrsta stóra verkefnið sem ráðist var í hér á landi eftir hrun. Framkvæmdir hafa gengið vel til þessa. Guðlaugur Þórarinsson er verkefnisstjóri í Búðarhálsvirkjun.

„Við erum á lokasprettinum. Við byrjuðum hérna tvö þúsund og tíu, að bjóða út, og þetta fjögurra ára verkefni er um það bil að enda, núna þegar dregur nær áramótunum.“

Guðlaugur segir menn ekki hafa lent í óvæntum erfiðleikum.

„Nei. Verkefnið hefur eiginlega frá upphafi gengið vel. Sumt gengur hraðar og sumt hægar eins og gengur en í heildina séð hefur þetta verkefni gengið bara mjög vel. Góðir verktakar og góðir menn sem hér starfa og þetta var vel undirbúið. Og bara að langmestu leyti gengið vel. >Eftir aðeins nokkra mánuði verða þessi göng hér full af vatni. En þetta er síðasti spottinn á leið þess frá Hrauneyjum og inn í þessa vél, aðra af tveimur vélum Búðarhálsvirkjunar, en hvor um sig er  fjörutíu og átta megawött.“

Á meðan verktakar á vegum Landsvirkjunar eru að ljúka við virkjunina sjálfa þá er Landsnet að á leggja raflínu frá stöðinni.  Virkjunin á að framleiða rafmagn inn á dreifikerfi landsnets en því hefur ekki verið ráðstafað til neins stórnotanda þó að á sínum tíma hafi verið rætt um Búðarhálsvirkjun í tengslum við mögulega stækkun álversins í Straumsvík. Þó svo að skiptar skoðanir séu um flesta virkjunarkosti á Íslandi þá má segja að óvenju mikil sátt hafi verið um Búðarhálsvirkjun enda hefur hún ákveðna sérstöðu.  

„Hérna erum við að taka síðasta hlekkinn í virkjun á Þjórsár- Tungnaár svæðinu, frá Vatnsfelli og niður fyrir Búrfell.  Búðarhálsvirkjun er í raun og veru að virkja síðasta þrepið á þessari leið. Og það er virkjun hérna neðan við. Hérna rétt neðan við, þar sem við stöndum, hérna rétt neðan við Sultartangavirkjun og Sultartangalón. Og fyrir ofan er Hrauneyjar, þannig að við erum, þetta er svona inn á milli virkjana sem er náttúrulega hentugt. Bæði náttúrulega líka hentugt fyrir okkur hjá Landsvirkjun því þetta er náttúrulega svolítið eins og byggingameistari sem er að byggja raðhús, sko. Hann er búinn að byggja fimm og er að byggja það sjötta þannig að það er komin mikil reynsla og þekking af svæðinu, bæði jarðefnunum og hvernig fljótið virkjar og fljótin. Og þetta er lítið umdeild framkvæmd, Búðarhálsvirkjun.“