Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Framkvæmdir fyrir 3 milljarða hefjast í haust

22.06.2019 - 18:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdir Bandaríkjahers að andvirði ríflega þriggja milljarða króna hefjast á Keflavíkurflugvelli í haust. Þetta eru fyrstu framkvæmdirnar á vegum bandarískra stjórnvalda á Íslandi síðan varnarliðið hætti starfsemi haustið 2006.

loknu útboði var í lok árs í fyrra gerður verksamningur milli bandaríska sjóhersins og bandaríska verktakans Rizzani DE Eccher um tvenns konar framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Annars vegar um byggingu þvottastöðvar fyrir flugvélar og hins vegar um viðhald og breytingar á flugskýli 831, þannig að hægt verði að taka inn í skýlið kafbátaeftirlitsflugvélar Atlantshafsbandalagsþjóðanna, P-8 Poseidon. Þá hefur verið undirritaður verksamningur milli bandaríska sjóhersins og ÍAV um viðhald og endurbætur á flugvélastæðum, akstursbrautum flugvéla og ljósakerfum á vellinum. Heildarkostnaður verkefnanna eru ríflega 25 milljónir dollara eða rúmir þrír milljarðar króna. 

Samkvæmt fjárhagsáætlun bandaríska flughersins fyrir 2020 verður 57 milljónum dollara varið til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli á næsta ári, eða sem nemur um sjö milljörðum króna. Sjö milljónir dollara fara til uppbyggingar færanlegrar aðstöðu fyrir herlið, 32 milljónir dollara fara í stækkun flughlaðs fyrir herinn og átján milljónir dollara fara til uppbyggingar á svæði til meðhöndlunar hættulegs farms, svo sem vopnabúnaðar (Dangerous Cargo PAD). Þær framkvæmdir hafa enn ekki verið boðnar út. Útlit er því fyrir framkvæmdir að andvirði allt að tíu milljarða króna á vegum Bandaríkjahers á Íslandi.