Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Framkvæmdastjórnin á móti afsögn

27.04.2016 - 17:04
Mynd: RÚV / RÚV
Framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins taldi ekki ástæðu til þess að framkvæmdastjóri flokksins segði af sér vegna tengsla sinna við aflandsfélög. Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, segir virðingarvert að framkvæmdastjórinn láti af störfum og þakkar honum fyrir gott starf.

Í Kastljósi á mánudaginn kom fram að Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, tengist tveimur aflandsfélögum. Meðal annars að hann hefði stofnað aflandsfélag 2003 í því skyni að leyna fjárfestingum í dönsku fyrirtæki. Hrólfur segir í tilkynningu í dag að hann láti af störfum vegna þess hve einsleit og óvægin umræðan sé. Þetta sé hans ákvörðun og að hún sé á engan hátt viðurkenning á því að hann hafi brotið lög eða starfað með óheiðarlegum hætti. Hann dragi sig í hlé til að koma í veg fyrir að rýrð verði kastað á Framsóknarflokkinn. Sigurður Ingi Jóhannsson segir að framkvæmdastjórn flokksins hafi komið saman í gær ásamt lögmanni og endurskoðanda þar sem stjórnin fékk skýringar á því að greinargerð framkvæmdastjórans væri fullnægjandi og svaraði öllum spurningum. Hann segir að framkvæmdastjórnin hafi afgreitt málið af sinni hálfu.

„Síðan velur framkvæmdastjórnin að segja af sé að eigin frumkvæði. Við teljum það mjög virðingarvert af og ég vil þakka honum fyrir öflugt starf fyrir flokkinn. Hann gerir þetta til að kasta ekki rýrð á flokkinn og þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir og ég er honum þakklátur fyrir það,“ segir Sigurður Ingi.

-Finnst þér rétt ákvörðun hjá honum að segja af sér?

„Hann metur það svo en við í framkvæmdastjórninni töldum ekki ástæðu til þess. Hann telur að það ég eðlilegast og ég virði það,“ segir Sigurður Ingi.

Í framkvæmdastjórninni eiga sæti meðal annara Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir og Ásmundur Einar Daðason.  Sigmundur Davíð var fjarverandi. Sigurður Ingi greindi frá afsögn framkvæmdastjórans á þingflokksfundi í dag. 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV