Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Framkvæmdastjóri kærður fyrir fjármálamisferli

22.06.2018 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: adhd.is - ADHD samtökin
Framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna hefur verið kærður til lögreglu fyrir fjármálamisferli. Stjórn samtakanna vék honum frá störfum á föstudag.

Verulegar fjárhæðir

Þröstur Emilsson tók við starfi framkvæmdastjóra ADHD-samtakanna haustið 2013 og var áður verkefnastjóri. Í vikunni tilkynnti stjórn samtakanna á vef sínum að hann hefði verið leystur frá störfum. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Þröstur verið kærður til lögreglu fyrir að misnota fjármuni samtakanna. Fjárhæðirnar séu verulegar og ekki talinn leika vafi á því að Þröstur hafi misnotað aðstöðu sína sem framkvæmdastjóri og aðgang sinn að fjármunum samtakanna.  

Óhjákvæmilegt að víkja honum frá störfum

Vilhjálmur Hjálmarsson, varaformaður stjórnar ADHD-samtakanna, segir í samtali við fréttastofu að málið sé komið í eðlilegan farveg og starfsemi félagsins hafi verið tryggð. Málið sé afar viðkvæmt og flókið, en það hafi verið ljóst að Þröstur nyti ekki lengur trausts stjórnar og því hafi verið óhjákvæmilegt að víkja honum frá störfum. Hugað verður að ráðningu nýs framkvæmdastjóra á síðari stigum. 

 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV