Frambjóðendum Demókrata tíðrætt um Trump

Mynd: EPA-EFE / EPA
Bernie Sanders sigraði í forvali forsetakosninganna í Bandaríkjunum í New Hampshire í gær, en mjótt var á munum. Flestum frambjóðendum Demókrata er tíðrætt um mikilvægi þess að koma í veg fyrir endurkjör Donalds Trumps.

„Þessi sigur okkar hérna markar upphafið á endalokunum fyrir Donald Trump.“ 

Þetta voru fyrstu viðbrögð Bernie Sanders þegar hann ávarpaði stuðningsfólk sitt í New Hampshire. 

„Það sem er sérlega eftirtektarvert við þessi úrslit er að Sanders hefur miklu minna fylgi en þegar hann lagði Hillary Clinton 2016 í New Hampshire með 22% mun. Þetta var mun naumari sigur, innan við tvö prósent,“ segir Julie Pace, fréttastjóri AP í Washington. 

Og þessum tæpu tveimur prósentum munaði á Sanders og Pete Buttigieg. Þeir höfðu sætaskipti í efstu tveimur sætum Demókrata í Iowa þar sem Buttigieg hafði betur. 

En Trump er fleiri frambjóðendum Demókrata en Sanders hugleikinn, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Ofur-þriðjudagurinn nálgast 

Joe Biden, sem margir hafa spáð sem líklegum frambjóðanda Demókrata, reið ekki feitum hesti frá forvali þeirra tveggja ríkja sem búin eru að greiða atkvæði. 

En þetta er ekki búið, næsta forval verður í Nevada 22. febúar og svo í Suður-Karólínu þann 29.febrúar.  Mesta eftirvæntingin ríkir svo eftir ofur-þriðjudeginum svokallaða, sem ber upp á þriðja mars, en þá verður kosið í fjórtán ríkjum, meðal annars í Kaliforníu og Texas, auk þess sem utankjörfundaratkvæði verða greidd. 

Þó að einungis sé búið að greiða atkvæði í tveimur ríkjum hafa nokkrir frambjóðendur þegar helst úr lestinni. Andrew Yang og Michael Bennet tilkynntu að þeir væru hættir við að sækjast eftir útnefningu Demókrataflokksins eftir niðurstöður í ríkjunum tveimur. 

Og á meðan Demókratar keppast um að fá að vera frambjóðandinn sem reynir að velta Trump úr sessi, segist hann sjálfur hvergi banginn. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi