Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fráleitt að vinnumarkaðurinn springi í loft upp

22.01.2020 - 18:05
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Í kröfum Eflingar í kjaraviðræðunum við Reykjavíkurborg er gert ráð fyrir sömu krónutöluhækkunum og í lífskjarasamningnum frá því í vor. Að auki er krafa um breytingar á starfsmati sem gæti skilað þeim sem eru á lægstu laununum rúmlega 50 þúsund króna hækkun á samningstímanum. Óvíst er hvenær næsti sáttafundur verður. Nýr aðstoðarsáttasemjari hefur tekið að sér að stjórna fundum í kjaradeilu Reykjavíkurborgar og Eflingar eftir að annar aðstoðsrsáttasemjari sagði sig fá verkinu í síðustu viku.

Dagur mætti ekki

Sæti borgarstjóra var autt á fundi sem samninganefnd Eflingar efndi til í Iðnó í dag. Það kom ekki á óvart því hann hafði ekki boðað komu sína. Tilboð Eflingar sem lagt var fram á sáttafundi á fimmtudaginn var kynnt á fundinum. Þar kemur fram eins og Sólveig Anna Jónsdóttir sagði í Speglinum í gær að það byggðist á lífskjarasamningnum, sömu krónutöluhækkanir og þar eða 90 þúsund króna hækkun á taxtalaun. Lengra nær samanburðurinn við lífskjarasamningin ekki hvað varðar krónur og aura. Gert er ráð fyrir að desemberuppbótin verði komin í lok samnings eða í byrjun 2022 í rúmar 380 þúsund krónur og að orlofsuppbótin verði helmingur af desemberuppbótinni eða 190 þúsund í lok samnings.

Breyting á starfsmati skili launahækkun

En veigamikill þáttur í tilboði Eflingar er það sem kallað er leiðrétting á stöðu láglaunafólks. Lagt er til að sú leiðrétting náist fram með því að breyta svokallaðri tengireglu starfsmats. En hvað felast miklar launahækkanir í kröfunni um breytingar á starfsmatinu? Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar kynnti tilboðið á fundinum í dag.

„Okkur telst til að þessi hækkun samkvæmt tilboðinu sem við gerum mundi þýða á samningstímanum samtals 50 þúsund króna hækkun mest fyrir þá sem eru á lægstu töxtum hjá Reykjavíkurborg og samtals rúmlega 20 þúsund krónur hjá þeim sem eru í efstu virku launaflokkum Eflingar. Það er nú allt og sumt. Það er fráleitt að halda því fram að þær séu eitthvað sem muni sprengja vinnumarkaðinn í loft upp. Bæði vegna þess að þær eru tiltölulega hóflegar yfir langt tímabil en sér í lagi að þær ná eingöngu og sérstaklega til allra lægstu launa og eru þar af leiðandi styrking á hugmyndafræði lífskjarasamningsins um það að markmið okkar sé það að reyna að hækka lægstu laun um fram önnur laun. Hér ekki um að ræða einhverja umframkrónutöluhækkun sem fari upp allan launastigann og hvað þá prósentuhækkanir," segir Viðar.

Krafa um breytingar á starfsmatinu hefur áhrif á mánaðarlaun undir rétt tæplega 446 þúsund krónum. Mest getur hækkunin verið á lægstu launin, rúmlega 52 þúsund. Þetta rímar við útreikninga Reykjavíkurborgar um lægstu meðallaun. Í lífskjarasamningnum eru þau 368 þúsund í lok samningstímans. Í nýgerðum samningum 18 félaga í Starfsgreinasambandinu er þessi tala rétt rúmlega 400 þúsund og sömuleiðis í því tilboði sem Reykjavíkurborg hefur lagt fram. Hins vegar er þessi meðalaunatala í tilboði Eflingar rúmlega 450 þúsund krónur eða rúmlega 12% hærri en Starfsgreinasambandið samdi um. 

Sáttasemjari hættir

Eftir sáttafund hjá ríkissáttasemjara á fimmtudaginn sagði Guðbjörg Jóhannesdóttir aðstoðarsáttasemjari sig frá því að stýra fundum í deilunni en hún hafði stýrt fjórum frá því í nóvember. Ástráður Haraldsson hefur verið settur í hennar stað. Það er ekki algengt að sáttasemjari fari fram á að hætta. Guðrún mun hafa talið að það væri ekki gagnlegt fyrir viðræðuferlið að hún yrði áfram. 

Nánar er rætt við Viðar í Speglinum.