Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fráleitt að fá ekki að ræða vantrauststillögu

06.04.2016 - 14:54
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
„Það er fráleitt að fá ekki vantrauststillöguna á dagskrá á morgun,“ segir Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. „Á morgun hefur vantrauststillagan legið í þrjá sólarhringa í þinginu án þess að stjórnarþingmenn treysti sér til að taka afstöðu til þess hvort þeir treysta sinni eigin forystu eða ekki,“ segir Helgi.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, átti fyrr í dag fund með formönnum þingflokkanna. Þar greindi hann þeim frá því að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhansson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, svari óundirbúnum fyrirspurnunum og að umræðutíminn verði tvöfalt lengi en venja er. Vantrauststillagan verði hins vegar ekki tekin á dagskrá. 

Helgi Hjörvar er ósáttur við það. „Það gengur ekki í þingræðisríki að það sé óvissa um það dögum saman hvort ríkisstjórn hefur þingmeirihluta. Og þessari óvissu um landsstjórnina verður að eyða svo fljótt sem verða má. Flokkarnir verða að ákveða hvort þeir ætla að stjórna landinu eða hætta,“ segir Helgi. „Staðan er sú að vantrauststillagan er ekki tekin til afgreiðslu vegna þess að það er ekki þingmeirihluti fyrir því að lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs sem enn situr,“ segir Helgi.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV