Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Frakkar reyna að komast hjá refsitollum

17.01.2020 - 16:18
epa04113275 A customer is seen at a luxury shop in the Hong Kong branch of St Laurent, a French luxury goods retailer, in Hong Kong, China, 07 March 2014. Hong Kong is known as a shopping destination for luxury goods due to a tax free system, in contrast to mainland China where high taxes are still slapped on luxury goods.  EPA/ALEX HOFFORD
 Mynd: EPA - Alex Hofford
Frakkar hafa lagt fram nokkrar hugmyndir til að leysa úr deilum við Bandaríkjastjórn vegna áforma um að skattleggja fjölþjóðleg netfyrirtæki á borð við Netflix og Amazon. Bandaríkjamenn hóta refsitollum á franskar vörur verði skattarnir að veruleika.

Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, greindi frá því í París í dag að hugmyndirnar hefðu verið kynntar Steven Mnuchin, starfsbróður hans í Washington. Le Maire vildi ekki segja hvað fælist í þeim.

Bandarísk stjórnvöld hafa brugðist hart við áformum Frakka um að skattleggja stór tækni- og netfyrirtæki. Slíkt gæti haft alvarleg áhrif á bandarískt efnahagslíf. Þau hafa því hótað að leggja refsitolla á franskar vörur að verðmæti tveggja komma fjögurra milljarða dollara, allt frá víni til dýrrar merkjavöru á borð við leðurhandtöskur.

Le Maire kvaðst í dag vongóður um að vel yrði tekið í hugmyndir Frakka í fjármálaráðuneytinu í Washington. Hann sagði í síðasta mánuði að hart yrði brugðist við ef Bandaríkjamenn létu verða af refsitollunum. Búast mætti við samræmdum aðgerðum Evrópusambandsríkja ef af því yrði.

Leiðtogar sjö helstu iðnríkja heims sammæltust um það á fundi í ágúst að þörf væri á alþjóðlegu samkomulagi um hvernig skattleggja eigi net- og tæknifyrirtæki. Stefnt var að því að samkomulag lægi fyrir í byrjun þessa árs.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV